Enski boltinn

Pardew reiknar með Ben Arfa í byrjun apríl

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alan Pardew, stjóri Newcastle, segist stefna að því að láta Hatem Ben Arfa spila með Newcastle á nýjan leik í byrjun aprílmánaðar.

Ben Arfa meiddist illa þegar hann tvífótbrotnaði í leik gegn Manchester City í október. Þá var hann lánsmaður frá Marseille en forráðamönnum Newcastle ákváðu engu að síður að gera langtímasamning við hann eftir að hann meiddist.

Newcastle mætir Wolves á heimavelli þann 2. apríl næstkomandi. „Ég tel að hann eigi góðan möguleika á að ná þeim leik,“ sagði Pardew við enska fjölmiðla. „Við eigum leik gegn Stoke þann 19. mars en ég gæti trúað því að það væri erfitt að ná honum.“

„Við förum varlega í þessum efnum þar sem að hann er búinn að vera svo lengi frá. Hann er byrjaður að hlaupa en það er enn rúmur mánuður í hann.“

Þá hefur annar framherji, Shola Ameobi, byrjað að æfa á nýjan leik eftir meiðsli en þar að auki seldi félagið Andy Carroll til Liverpool í lok janúar. Undanfarið hafa þeir Peter Lovenkrands og Leon Best verið að spila í fremstu víglínu hjá Newcastle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×