Innlent

Fundi fjárlaganefndar lokið - útprent lesið af símtali Davíðs

Fulltrúum fjárlaganefndar var afhent útprent af símtali Davíðs Oddssonar og Mervyn King, bankastjóra Englandsbanka, en Davíð hefur haldið því fram að í símtalinu komi fram að Mervyn King hafi sagt að Íslendingar þyrftu ekki að greiða Icesave skuldina.

Símtalið var lesið af númeruðum blöðum og þurftu nefndarmenn að skila sínum eintökum þegar fundinum lauk. Mikil áhersla er lögð á að ekki komi fram opinberlega hvað Davíð og Mervyn fór nákvæmlega á milli en Mervyn King hefur sagt í breskum fjölmiðlum að hann vissi ekki að símtal hans og Davíðs væri hljóðritað.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, gagnrýnir þessa leyndarhyggju.

„Við fáum þessar upplýsingar og erum skildug að halda trúnaði yfir þeim en svona leyndarhyggja getur haft stóralvarlegar afleiðingar og var í raun grunnurinn að því hruni sem hérna varð."

Nú þegar hafa fjöldi manns séð nákvæmlega hvað þeim Davíð og Mervyn King fór á milli í hinu umrædda símtali. Bæði fjárlaganefnd og utanríkisnefnd hafa séð útprent af símtalinu. Þjóðin hefur hins vegar einungis orð Davíðs Oddssonar fyrir því hvaða orð voru látin falla.

Þór Saari segir það mikilvægt að ef til dæmis yrði kosið um Icesave þá þyrftu öll gögn að vera gerð opinber.

„Þetta er mjög óeðlileg staða og það verður gerð krafa um það að öll gögn verði opinberuð fari málið í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Spurður hvort það sé rétt hjá Davíð að Mervyn King hafi sagt Íslendinga ekki þurfa að borga segist Þór aftur bundinn trúnaði.

„En það er óhæft að stór hluti stjórnsýslunnar sé hulinn leyndarhjúpi," segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×