Sport

Suður-Afríkumönnum kippt á jörðina í miðjum fagnaðarlátum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr viðureign Suður-Afríku og Sierra Leone.
Úr viðureign Suður-Afríku og Sierra Leone. Nordic Photos / AFP
Undankeppni Afríkukeppninnar í knattspyrnu lauk í flestum riðlum í dag og varð mikill ruglingur í einum þeirra til þess að bæði leikmenn og stuðningsmenn Suður-Afríku fögnuðu sæti í aðalkeppninni, þó svo að þeir komust ekki áfram upp úr riðlinum.

Suður-Afríka gerði í dag markalaust jafntefli við Sierra Leone. Á sama tíma vann Egyptaland 3-0 sigur á Níger sem þýddi að Suður-Afríka, Níger og Sierra Leone urðu öll efst og jöfn með níu stig hvert.

Níger var með versta markahlutfallið af þessum þremur liðum en komst engu að síður áfram á betri árangri í innbyrðisviðureignum gegn Suður-Afríku og Sierra Leone.

Suður-Afríkumenn héldu að þeir hefðu komist áfram á besta markahlutfallinu og fögnuðu því vel og innilega í leikslok. Það reyndist þó rangt því Knattspyrnusamband Afríku hefur nú staðfest að Níger er réttur sigurvegari riðlsins.

Egyptaland á titil að verja í keppninni en vann í dag sinn eina sigur í riðlinum. Meistararnir voru því þegar fallnir úr leik fyrir leiki dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×