Erlent

Rick Perry glatar helmingi fylgis síns

Rick Perry.
Rick Perry.
Eftir að hafa skotist upp á stjörnuhimininn í baráttunni um útnefningu Repúblikanaflokksins til forsetaembættis Bandaríkjanna virðist Rick Perry, ríkisstjóri Texas, nú vera að upplifa stjörnuhrap. Hann hefur glatað um helmingi fylgis síns síðasta mánuðinn samkvæmt nýrri könnun Washington Post og ABC News.

Mitt Romney, fyrrverandi ríkisstjóri Massachusetts, hefur hins vegar aftur bætt við fylgi sitt og hefur tekið forystu í kapphlaupinu.

Hástökkvarinn í könnuninni er aftur á móti hinn þeldökki kaupsýslumaður Herman Cain, sem nú mælist með næstmest fylgi frambjóðenda flokksins.

Könnunin bendir í öllu falli til þess að Barack Obama, sitjandi forseti, eigi verulega á brattann að sækja í forsetakosningunum á næsta ári, en 55 prósent kjósenda segjast telja að Repúblikanar nái hvíta húsinu, en 37 prósent telja að Obama haldi því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×