Innlent

Andar köldu á milli embætta - Haraldur neitar að afhenda upplýsingar

Haraldur Johannessen.
Haraldur Johannessen.
Ríkislögreglustjóri og Ríkisendurskoðandi eru komnir í hár saman en fyrrnefnda embættið, neitar að afhenda Ríkisendurskoðun upplýsingar sem embættið hefur óskað eftir um viðskipti ríkislögreglustjóra við Radíóraf, nema Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi, segi sig frá málinu.

Þetta kom fram í fréttatíma Ríkisútvarpsins. Þar var birt bréf á milli embættanna, þar sem afstaða Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, kom fram.

Upplýsingarnar sem ríkisendurskoðun óskaði eftir eru 165 milljón króna viðskipti á milli ríkislögreglustjóra og Radíóraf.

Svo virðist sem það andi köldu á milli embættanna eftir að ríkisendurskoðandi fullyrti í skýrslu sinni að viðskipti lögregluembættisins árið 2008 hefðu verið óeðlileg. Innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að embætti ríkislögreglustjóra hefði ekki brotið í bága við lög.

Þá kom einnig fram í fréttatíma Ríkisútvarpsins, að lögfræðistofan Lex hefði unnið álit fyrir ríkislögreglustjóra þar sem fram kemur að það sé óljóst hvort ríkisendurskoðandi eigi að leggja mat á það hvort embætti ríkislögreglustjóra hafi orðið uppvíst af brotum varðandi lög um opinber innkaup.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×