Erlent

Kínverjar gagnrýna Asíuáform Obama

Leiðtogar Suðaustur-Asíuríkjanna á fundinum í Indónesíu. Thein Sein, hinn nýi leiðtogi Búrma, er lengst til hægri. nordicphotos/AFP
Leiðtogar Suðaustur-Asíuríkjanna á fundinum í Indónesíu. Thein Sein, hinn nýi leiðtogi Búrma, er lengst til hægri. nordicphotos/AFP
Heimsókn Baracks Obama Bandaríkjaforseta setur svip sinn á leiðtogafund tíu Suðaustur-Asíuríkja sem hófst á eyjunni Balí í Indónesíu í gær.

Obama hefur kynnt margvísleg áform um sterkari ítök Bandaríkjanna á Kyrrahafinu og allt til Asíu. Þau áform hafa mætt gagnrýni, ekki síst frá Kínverjum, sem virðast telja þessi auknu umsvif beinast gegn sér.

„Bandaríkin telja að heimsyfirráðum þeirra stafi nú vaxandi hætta frá Kína,“ segir í ritstjórnargrein frá Xinhua, hinni opinberu fréttastofu kínverskra stjórnvalda. „Þess vegna er þessari breyttu áherslu Bandaríkjanna, sem nú horfa til austurs, í reynd beint að því að halda Kína niðri og halda Kína í skefjum og vinna á móti þróun Kína.“

Í ræðu sem Obama hélt í Ástralíu, þar sem níu daga Asíuferð hans hófst á miðvikudag, sagði hann að Bandaríkin myndu á næstunni leggja mikla áherslu á að rækta tengsl sín við Kyrrahafs- og Asíuríki, ekki síst í varnarmálum. Fjárhagslegur niðurskurður í Bandaríkjunum myndi ekki draga neitt úr því.

„Nú þegar flest kjarnorkuveldi heims og helmingur mannkyns eru í Asíu mun Asía að stórum hluta ráða því hvort öldin fram undan einkennist af átökum eða samvinnu, tilgangslausum þjáningum eða framförum mannkyns,“ sagði hann og lagði meðal annars áherslu á að efla samstarf við Kína.

Á leiðtogafundi Suðaustur-Asíuríkjanna bar það annars til tíðinda að tekin var ákvörðun um að Búrma yrði gestgjafi fundarins árið 2014. Þessi ákvörðun var tekin eftir að ljóst þótti að verulegar lýðræðisumbætur væru að eiga sér stað í Búrma eftir að Sinn Thein tók við forsetaembætti þar í kjölfar hinna umdeildu kosninga fyrr á árinu.

Stjórnvöld í Búrma hafa meðal annars látið fjölda stjórnarandstæðinga lausa úr fangelsi og fyrir liggur að Lýðræðishreyfingin, flokkur Aung San Suu Kyi, fái á ný skráningu sem löglegur flokkur og geti boðið fram til næstu kosninga. Þessi flokkur vann stórsigur í kosningum árið 1990 en herforingjastjórnin þar vildi ekki viðurkenna sigurinn og hefur síðan barið niður alla stjórnarandstöðu í landinu, allt þar til nú á síðustu mánuðum.

Meðal erfiðra viðfangsefna á leiðtogafundinum eru deilur um tilkall til nokkurra eyja í Suður-Kínahafi og mörk landhelgi ríkjanna.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×