Erlent

Ótrúlegar skuldir Jacksons

Michael Jackson rakar inn seðlum eftir andlát sitt og kannski er það eins gott því hann skuldaði um 47 milljarða.nordicphotos/getty
Michael Jackson rakar inn seðlum eftir andlát sitt og kannski er það eins gott því hann skuldaði um 47 milljarða.nordicphotos/getty
Í júní næstkomandi verða liðin tvö ár frá því að Michael Jackson andaðist langt fyrir aldur fram. Læknir poppgoðsins er fyrir dómstólum vegna gruns um vanrækslu og hálfgerð „skilanefnd“ er á fullu við að endurskipuleggja fjárhag fjölskyldu hans.

Michael Jackson andaðist í júní 2009, þremur vikum fyrir áætlaða tónleikaferð sína, This Is it. Fjölmiðlar héldu því fram á þeim tíma að Jackson hefði neyðst til að fara í tónleikaferðina til að grynnka á skuldum sem voru, samkvæmt heimildum bandarískra fjölmiðla, gríðarlegar eftir gegndarlausa eyðslu gegnum tíðina.

Fjölmiðlar þar vestra virðast hafa haft nokkuð til síns máls því vefsíðan tmz.com hefur komist yfir skjöl frá fjárhaldsmönnum Jackson-búsins sem sýna fram á að Jackson var í raun og veru stórskuldugur maður þrátt fyrir að vera stærsta poppstjarna sögunnar. Samkvæmt áðurnefndum skjölum skuldaði Jackson yfir 400 milljónir dala, eða um 47 milljarða íslenskra króna, fyrir margvíslega hluti. Dánarbúið skuldaði auk þess AEG fjörutíu milljónir dala vegna tónleikaferðinnar This Is it, sem samsvarar á fimmta milljarð íslenskra króna.

Jackson hefur hins vegar breyst í hálfgerða gullgæs eftir að hann dó því dánarbúið hefur þénað 300 milljónir dala, eða 35 milljarða íslenskra króna. Af þeim hefur 159 milljónum dala verið eytt í greiðslu skulda og skatta auk þess sem Katherine Jackson, móðir popparans, hefur fengið sína sneið af kökunni, sem og börn Jacksons. Þá greiddi dánarbú Jacksons sjálft fyrir jarðarförina og minningarathöfnina.

Samkvæmt hálfgerðri „skilanefnd“ dánarbús Jackson á það enn yfir höfði sér málsóknir vegna skulda úti um allan heim. Yfir 65 kröfur hafa verið gerðar í dánarbúið. „Við teljum okkur hins vegar hafa endurreist ímynd Jacksons og traust hans gagnvart lánardrottnum,“ hefur tmz.com eftir einum skilanefndarmanna.

freyrgigja@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×