Erlent

Látlausar sprengingar og háar eldtungur í Aþenu

Óli Tynes skrifar
Aþena.
Aþena.
Færeyski verksmiðjutogarinn Aþena logar stafnanna á milli í höfninni í Runavík í Færeyjum. Ekki er hægt að hefja slökkvistarf vegna mikilla sprenginga í skipinu. Hálfíslensk kona sem býr í Runavík segir að fólk sem býr næst höfninni hafi verið flutt á brott.

Togarinn Athena er tæp 8000 tonn og hin mesta óhappafleyta. Þetta er í þriðja skipti sem í honum verður stórbruni.  Íbúar í Runavík eru um 4000 talsins. Um 1500 þeirra, sem búa næst höfninni voru fluttir á brott frá heimilum sínum í nótt þegar eitraðan reyk lagði yfir þann hluta bæjarins. Auk þess urðu um borð miklar sprengingar og jafnvel talin hætta á að skipið spryngi í loft upp. Athena var einmitt til viðgerðar í Runavik vegna eldsvoða á síðasta ári. Sigrid Dalskard sem er hálfíslensk, býr í Runavik. Hún segir að skipið logi stafnanna á milli.

Það voru aðeins þrír menn um borð þegar eldurinn kom upp og þeir komust klakklaust í landi.  Hinsvegar er talið  að togarinn sé nú þegar gjörónýtur. Eldtungurnar standa marga metra í loft upp og sprengingarnar eru látlausar. Gera má ráð fyrir að hann eigi eftir að brenna marga daga til viðbótar. Hann hefur því væntanlega farið í sína síðustu veiðiferð.  Ekki er á þessari stundu vitað hvernig eldurinn kviknaði.

Runavik er um 11 kílómetra norðan við Þórshöfn í Færeyjum. Bærinn er á suðurhluta Austureyjar. Höfnin var upphaflega einkum notuð af fiskiskipum. Nú er þar einnig lykilbirgðastöð fyrir olíuvinnslu í Norðursjó og umskipunarhöfn fyrir vöruflutninga til og frá Evrópu.

Skipið Athena var smíðað árið 1992 og er í eigu útgerðarfélagsins Thor í Færeyjum. Thor gerir út fjölmörg skip. Bæði til að þjónustu við  olíuiðnaðinn og til fiskveiða um öll heimsins höf. Athena er einn stærsti togari Færeyinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×