Erlent

Um 130 manns játað að hafa myrt Palme

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Olaf Palme ásamt François Mitterrand, þáverandi forseta Frakklands, í heimsókn þess síðarnefnda til Svíþjóðar árið 1984. Mynd/afp
Olaf Palme ásamt François Mitterrand, þáverandi forseta Frakklands, í heimsókn þess síðarnefnda til Svíþjóðar árið 1984. Mynd/afp
Alls hafa um 130 manns játað á sig morðið á Olaf Palme, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, frá því að rannsókn málsins hófst. Sænska lögreglan ætlar að rekja sögu rannsóknarinnar í tilefni þess að þann 28. febrúar næstkomandi eru liðin 25 ár síðan að rannsóknin hófst.

Olaf Palme var myrtur úti á götu í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, árið 1986. Margar samsæriskenningar hafa sprottið upp um morðið og hefur rannsóknin á því kostað 500 milljónir sænskar krónur, eftir því sem fram kemur í Dagens Nyheter. Upphæðin nemur 9 milljörðum íslenskra króna.

Sænska lögreglan viðurkennir að á stundum sé lítið um upplýsingar sem hægt er að notast við, en enn sé vonast til þess að á endanum fáist upplýsingar sem muni varpa nýju ljósi á málið. „Ég hef unnið við málið í fjórtán ár og það er stundum erfitt að fást við það," segir Stig Edqvist, yfirmaður Palmehóps sænsku lögreglunnar.

Um það bil 130 manns hafa játað á sig morðið. Enginn þeirra hefur þó verið trúverðugur. Alvarlegasta játningin var frá fíkniefnaneytandanum Christer Pettersson. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á Palme árið 1989. Hann var hins vegar sýknaður síðar því að vafi lék á hver samskipti hans við forsætisráðherrann hefðu verið. Hann kom aldrei aftur fyrir dómstóla, en árið 2004 viðurkenndi Petterson að hann hefði nokkuð sem hann vildi segja Palmefjölskyldunni. Hann lést af heilablóðfalli áður en hann náði að segja þeim sögu sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×