Innlent

Vesturbæjarlaugin 50 ára

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vesturbæjarlaugin er orðin 50 ára gömul og alltaf jafn vinsæl.
Vesturbæjarlaugin er orðin 50 ára gömul og alltaf jafn vinsæl. mynd/ vilhelm.
Á morgun eru liðin 50 ár frá vígslu Vesturbæjarlaugarinnar. Hafliði Halldórsson hefur starfað sem forstöðumaður laugarinnar í tvö ár. Hann hefur verið að skoða blaðagreinar að undanförnu til þess að minnast þeirra tíma þegar verið var að vígja laugina.

„Það var allskonar vesen. Lekar leiðslur og svoleiðis," segir Hafliði. Af þeirri ástæðu hafi ekki tekist að opna laugina fyrir almenningi fyrr en viku eftir að hún var vígð. „Það er Geir Hallgrímsson borgarstjóri sem vígir laugina og Morgunblaðið fer mikinn í umfjöllun um hana," segir Hafliði.

Þá segir Hafliði að það sé pínulítið skondið að hugsa til þess að umræðan um aðgönguverð í sund sé nákvæmlega sú sama nú og hún var við opnun Vesturbæjarlaugar. „Stjórnmálamennirnir ákveða að hækka verðið og alltaf eru borgaranir jafn undrandi og finnst að sér vegið," segir Hafliði.

Þá segir Hafliði að það veki athygli hve flott mannvirki Vesturbæjarlaugin hafi verið þegar hún var gerð. Allt var flísalagt í hólf og gólf. Inni í húsinu voru máluð listaverk á veggi og risastórt fiskabúr.

Vesturbæjarlaugin verður með sérstaka afmælisviku í tilefni af tímamótunum og verður hún sett klukkan fjögur á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×