Íslenski boltinn

Garðar: Það er munur á hroka og sjálfsöryggi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Garðar fagnar marki í leik með Stjörnunni.
Garðar fagnar marki í leik með Stjörnunni. Mynd/Stefán
Garðar Jóhannsson skoraði tvö mörk fyrir Stjörnuna í 4-0 sigrinum á FH í síðustu viku. Garðar er með mörkunum tveimur orðinn markahæstur í deildinni með tólf mörk.

„Eftir að við skoruðum sóttu þeir svolítið og fengu færi en Ingvar hélt okkur inni í leiknum. Í seinni hálfleik fannst mér þetta vera einstefna, sérstaklega eftir að við skoruðum annað markið. Þeir áttu ekki möguleika," segir Garðar.

Garðar segir fá lið standa Stjörnunni snúning þegar liðið spilar góðan leik. Hann segist sjálfur hafa verið svolítið seinn í gang í sumar, klúðrað slatta af færum en nú sé þetta farið að ganga ágætlega. Garðar hefur meira að segja skorað nokkur glæsimörk með langskotum.

„Það kemur fyrir að það detti eitt og eitt svona inn, einhverjar perlur. En í FH-leiknum voru þetta ekki einhverjir þrumufleygar. Bara týpísk framherjamörk, troða honum inn fyrir línuna," segir Garðar sem hefur ekki komið sjálfum sér á óvart með glæsimörkunum.

„Þetta hefur alltaf blundað í manni. Ég hef oft gert þetta á æfingu. Þetta hefur ekki oft tekist í leikjum en það er gaman þegar það dettur í leikjunum."

Garðar segir Stjörnuliðið þurfa meiri stöðugleika til þess að geta farið að keppa um titla. Liðið fái of mörg mörk á sig. Tækist að breyta því væri liðið í toppbaráttunni. Það sé engin spurning.

„Við spilum samt fótbolta sem býður upp á þetta. Með tíð og tíma ættum við að læra að loka vörninni þótt við séum að sækja. Það hefur loðað við Stjörnuna undanfarin ár að fá jafnmörg mörk á sig og liðið skorar. Núna höfum við fengið á okkur tíu mörkum færri en við höfum skorað og því erum við ofar í töflunni," segir Garðar sem sér stíganda í frammistöðu liðsins milli ára.

Kvennalið Stjörnunnar landaði fyrsta Íslandsmeistaratitli félagsins í meistaraflokki frá upphafi á dögunum. Garðar lítur ekki svo á að karlaliðið standi í skugga kvennaliðsins.

„Það gefur okkur aukinn kraft að sjá þær vinna þetta. Okkur langar náttúrulega líka að vinna. Það gerist kannski ekki í ár en mögulega á næsta ári."

Garðar segir hug sinn vera í Garðabænum en útilokar þó ekki að fara aftur í atvinnumennsku. Það þyrfti þó að vera sérstaklega spennandi.

„Ef eitthvað kæmi upp á Norðurlöndunum hugsa ég að ég myndi ekki nenna því. Ef það væri eitthvað framandi eins og Ameríka þá myndi ég skoða það," segir Garðar sem var elsti leikmaður Stjörnunnar í leiknum gegn FH.

Garðar segir ofsögum sagt að hann sé í sínu besta formi um þessar mundir. Það sé alltaf eitthvað að angra hann en ekki þannig að hann sé lengi að jafna sig eftir leiki.

„Nei, það er ekkert svoleiðis. Ég er enginn Gylfi [Einarsson, leikmaður Fylkis], að geta ekki gengið í viku eftir leik. Maður fær spörk, ég tognaði í tánni og líka aftan í lærinu. En ég tel mig góðan að hafa bara misst úr einn leik í sumar."

Garðar hefur ekki farið leynt með markmið sitt að Stjarnan tryggi sér Evrópusæti á tímabilinu. Margir hefðu sagt það metnaðarfullt enda var Stjörnunni ekki spáð góðu gengi í sumar. Garðar er þó sjálfsöruggur og heyrst hefur að hann gangi undir viðurnefninu hroki hjá liðsfélögum sínum sem flestir eru árunum yngri en Garðar.

„Það er stór munur á hroka og sjálfsöryggi. Þeir halda að þetta sé hroki en ég hef sýnt þeim margoft að þetta er ekki hroki. Bara geta sem ég hef fram yfir þá. Þetta eru nú bara létt skot fram og til baka. Það er aðallega Bjarki [Páll Eysteinsson] sem stendur fyrir þessu en ég held að hann sé bara afbrýðisamur. Hann hefur ekki þessa knattspyrnulegu getu til þess að vera með smá hroka," segir Garðar léttur.

Lið 17. umferðar

Markvörður:

Ingvar Jónsson, Stjörnunni

Varnarmenn:

Trausti Björn Ríkharðsson, Fylki

Daníel Laxdal, Stjörnunni

Ólafur Örn Bjarnason, Grindavík

Hlynur Atli Magnússon, Fram

Miðjumenn:

Jóhann Laxdal, Stjörnunni

Andri Rafn Yeoman, Breiðabliki

Finnur Ólafsson, ÍBV

Sóknarmenn:

Albert Brynjar Ingason, Fylki

Garðar Jóhannsson, Stjörnunni

Tryggvi Guðmundsson, ÍBV




Fleiri fréttir

Sjá meira


×