Erlent

Viðbrögðin gerðu illt verra í Fukushima

Yoshihiko Noda forsætisráðherra tekur við skýrslunni úr hendi Yotaro Hatamuta.
Fréttablaðið/AP
Yoshihiko Noda forsætisráðherra tekur við skýrslunni úr hendi Yotaro Hatamuta. Fréttablaðið/AP
JapanViðbrögð stjórnvalda jafnt sem starfsmanna kjarnorkuversins í Fukushima í kjölfar jarðskjálftans mikla og flóðbylgju fyrr á árinu voru ómarkviss og gerðu illt verra. Ringulreið, samskiptaleysi og rangar ákvarðanir einkenndu viðbrögðin, að því er fram kemur í nýrri 500 blaðsíðna skýrslu sem stjórnvöldum var afhent í gær.

Höfundar skýrslunnar hafa rætt við meira en 400 manns, bæði starfsmenn í verinu og embættismenn á ýmsum stigum stjórnsýslunnar. Fram kemur að hættan af flóðbylgju var gróflega vanmetin. Allir aðilar málsins hafa einnig reynt að koma sér undan ábyrgð með því að vísa til þess að flóðbylgjan hafi verið stærri en nokkrum hefði getað dottið í hug.

Stuttu fyrir jól skýrðu japönsk stjórnvöld frá því að loks hefði tekist að ná tökum á ástandinu í Fukushima. Um svipað leyti kynntu stjórnvöld einnig áætlun um að leggja niður öll kjarnorkuver í landinu innan fjörutíu ára.

Aðeins sex af 54 kjarnorkuverum Japans eru reyndar í notkun þessa dagana. Hin eru lokuð vegna viðhalds af ýmsu tagi. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×