Innlent

„Ég og skepnurnar átum þetta eitur“

Steingrímur Jónsson
Steingrímur Jónsson
Steingrímur Jónsson, bóndi í Efri-Engidal í Skutulsfirði, tekur niðurstöðum jarðvegsmælinga Umhverfisstofnunar með fyrirvara. Hann sér ekkert jákvætt við málið. Það eigi ekki síst við um þá niðurstöðu að díoxín finnist ekki í eins miklu magni í jarðvegi á hans landi eins og var óttast. Ástæðan er einföld, og Steingrímur vitnar í greinargerðina, eða að lítið díoxín í jarðvegi megi rekja til þess að skepnurnar hans átu það í beit eða með fóðri sem þeim var gefið, áður en það náði að setjast í svörðinn. Steingrímur missti allan sinn búpening vegna díoxínmengunar sem í skepnunum mældist. Voru það 20 nautgripir og 80 fjár.

„Það má vera að þetta sé jákvætt, en það sem ég les út úr þessu er að ég hreinsaði mengunina upp jafn óðum. Þar sem var slegið og bitið er hreinna en landið í kring. Þetta kom því ekki í veg fyrir að ég og dýrin mín menguðumst. Díoxín mælist 60 prósent yfir mörkum í mér og piltinum í stöðinni [starfsmaður sorpbrennslunnar Funa],“ segir Steingrímur. „Eftir að hafa kynnt mér hvernig þessi sýni voru tekin er svolítið vantraust í mér. En þetta eru sérfræðingarnir svo kannski á ég ekki að rengja þá.“

Bóndinn bætir því við að í raun sé eina sýnatakan sem skipti hann máli hafi verið blóð og mjólkursýni úr dóttur hans sem sýndi mun lægri tölur en hjá honum sjálfum. Hún var með barn á brjósti þegar hún bjó í foreldrahúsum.

Þegar Steingrímur er spurður hvort hann hyggi á búskap á jörðinni í framtíðinni segir hann allt of snemmt að svara nokkru um það. Hans réttindamál séu óljós og milljóna fjárfesting að koma sér upp bústofni að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×