Enski boltinn

Sir Alex: Mourinho verður að bíða eftir Man. United starfinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José Mourinho og Sir Alex Ferguson.
José Mourinho og Sir Alex Ferguson. Mynd/AFP
José Mourinho, stjóri Real Madrid, hefur aldrei reynt að fela mikið áhuga sinn á því að taka við af Sir Alex Ferguson hjá Manchester United og Portúgalinn lét líka hafa það eftir sér á dögunum að hann eigi sitthvað óklárað í enska boltanum. Mourinho er nú að klára fyrsta árið í þriggja ára samningi hjá Real Madrid og gæti þurft að efna hann ætli hann sér að fá tækifæri til að komast í stjórastólinn á Old Trafford.

„Jose er góður vinur minn og við höfum oft talað saman um hans framtíð. Ég veit að hann vill komast aftur til Englands því hér hafa þjálfarar miklu meira frjálsræði en á Spáni og þeir eru líka lausir við endalaust áreiti frá fjölmiðlum," sagði Sir Alex Ferguson.

„Það er samt erfitt fyrir mig að gefa það út hvenær mitt starf muni losna. Heilsa mín mun ráða mestu um það og ég mun halda áfram á meðan ég hef orku og heilsu til," sagði Ferguson.

„Faðir minn vann í skipasmíðastöð, hætti að vinna 65 ára og var dáinn ári seinna. Það versta sem þú getur gert er að vinna í 45 ára og hugsa að þú hafir unnið þér inni hvíld. Þú verður alltaf að hafa eitthvað að gera og halda þér í góðu formi," sagði Ferguson.

Ferguson verður sjötugur seinna á þessu ári og þá verður hann búinn að sitja í 25 ár í stjórastólnum á Old Trafford.

„Ef einhver kemur til mín og segir við mig: Alex, þú ert orðinn of gamall, þá sætti ég mig alveg við það. Ég er búinn að skila mínu hérna og á frábæran feril að baki," sagði Ferguson en það er samt nokkuð öruggt að lokaákvörðunina um framtíð sína hjá United mun hann taka sjálfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×