Innlent

Össur til í þjóðaratkvæði um kvótakerfið

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segist þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að kjósa um sjávarútvegsmálin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta kom fram í spjalli við Össur í morgunþætti Bylgjunnar, Í bítið.

Össur sagði ríkisstjórnina mjög einbeitta í þeim ásetningi sínum að koma í veg fyrir að sérhagsmunahópar, á borð við Landssamband íslenskra útvegsmanna, komist upp með að setja kjaramálin í gíslingu með því að krefjast þess að kvótamálinu sé blandað í viðræðurnar. Hann segir að LÍÚ hafi krafist þess að vald Alþingis til þess að breyta lögum um auðlindirnar væri tekið af því og sett á samningaborðið. „Þetta gengur ekki upp," segir Össur.

Hann segir að sér sýnist að útgerðarmenn séu að setja þetta mál í þann farveg að það verði ekki leyst með öðrum hætti en í þjóðaratkvæðagreiðslu. Össur segist hafa talað um það árum saman að eðlilegt væri að útkljá kvótamálið með þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Ef þeir keyra þetta í þessa hörku er ekki annað hægt en að stappa niður fæti fyrir hönd almenningshagsmuna," segir Össur og bætir við: „Hvers vegna ekki að nota þjóðaratkvæði til þess að ákveða hvernig breytingar við gerum á kvótakerfinu - og til er ég."

Smelltu hér að ofan til að hlusta á Össur, eða hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×