Innlent

Spádómskýrin Glæta spáir Íslandi sigri

Fyrsti leikur Íslands gegn Ungverjalandi á Heimsmeistaramótinu í handbolta verður jafn og spennandi en sigurinn dettur okkar megin á lokasekúndunum. Þessu spáir kýrin Glæta frá Kotlaugum í Hrunamannahreppi, sem sögð er búa yfir spádómsgáfu.

Flestir muna eftir þýska kolkrabbanum Páli sem heillaði heimsbyggðina með spádómum sínum í kringum heimsmeistaramótið í knattspyrnu í sumar.

En nú er það handboltinn. Þetta er hún Glæta sem sögð er hafa byrjað að spá fyrir kappleikjum löngu á undan Páli og var því ákveðið að fá hana til þess að kíkja á komandi mót.

Líkt og sjá má í meðfylgjandi myndbandi þá var Glæta lengi að ákveða sig fyrir Ungverjaleikinn en Davíð Eldur Baldursson tók meðfylgjandi myndband af kúnni við störf.

„Það er sagt með hana þegar hún er lengi að ákveða sig, eins og í þessu tilviki, þá verði leikurinn jafn og ráðist hugsanlega ekki fyrr en á síðustu mínútunum," segir Davíð Eldur.

Davíð fékk Glætu til þess að spá fyrir um alla leiki Íslands í riðlakeppninni og er hún frekar bjartsýn á gengi liðsins. Þó sé þar einn leikur sem hafi komið öllum á óvart.

Veðbankar hafa verið að spá Íslandi 6. til 8.sæti en fyrstu sjö sætin gefa þáttökurétt í umspili fyrir Ólympíuleikana í London 2012, því er mikið undir.

En veit Glæta eitthvað í sinn kýrhaus þegar kemur að handbolta?

„Kannski ekki alltaf hundrað prósent, hún hefur klikkað á leik, en hún er betri en flestir veðbankar," segir Davíð Eldur brattur að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.