Íslenski boltinn

Svona var fallbaráttan: Þór féll

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þjálfarar liðanna fjögurra sem eru í fallhættu í dag.
Þjálfarar liðanna fjögurra sem eru í fallhættu í dag. Samsett mynd/Vísir
Íþróttavefur Vísis fylgdist náið með lokaumferðinni í Pepsi-deild karla en að lokum voru það hlutskipti Þórs frá Akureyri að falla með Víkingum í 1. deild karla. Lokaumferð Pepsi-deildar karla var sannarlega dramatísk.

Það voru því nýliðarnir Þór og Víkingur sem féllu aftur í 1. deildina. Keflavík, Fram og Grindavík björguðu sér með því að vinna sína leiki.

Grindavík vann 2-0 sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum þar sem bæði mörkin komu undir lok leiksins. Tryggvi Guðmundsson misnotaði þó tvær vítaspyrnur í leiknum, Þórsurum til mikillar gremju. Hann náði því ekki að bæta markametið fræga í dag.

Keflavík vann Þór á heimavelli, 2-1, og Fram gulltryggði sæti sitt í deildinni með 2-1 sigri á Víkingi eftir ótrúlegt sumar í Safamýrinni.



SætiLiðStigMarkatala
8.Keflavík2427-32 (-5)
9.

Fram

24

20-28 (-8)
10.Grindavík2326-37 (-11)
11.Þór2128-41 (-13)
Úrslitin / Lokastaðan:

14:00 Fram - Víkingur2-1

14:00 ÍBV - Grindavík0-2

14:00 Keflavík - Þór2-1





Bein textalýsing:

15.50 Leik lokið í Laugardalnum

15.49 Leik lokið í Keflavík - ÞÓR FALLIÐ

15.49 Breiðablik vann Stjörnuna

Ekki tókst Stjörnumönnum að hirða Evrópusætið af Eyjamönnum þar sem að Guðmundur Pétursson tryggði Blikum 4-3 sigur á Stjörnunni í uppbótartíma.

15.48 Leik lokið í Vestmannaeyjum

15.47 Tryggvi klúðrar öðru víti

Mark númer 127 hjá Tryggva ætlar ekki að koma í dag. Gjörsamlega ótrúlegur leikur í Vestmannaeyjum og þvílíkur lokadagur í Pepsi-deildinni!

15.45 Gríðarleg spenna í Kópavoginum

Stjörnumenn vantar eitt mark til viðbótar til að skjótast upp í þriðja sæti deildarinnar og tryggja sér þar með Evrópusætið. Fylgist með leiknum hér.

15.44 Þór á leið í 1. deildina

Tvær mínútur eftir í Keflavík auk uppbótartíma og málið er einfalt. Þór verður að skora tvívegis og vinna leikinn til að bjarga sér frá falli.

15.40 ÍBV - Grindavík 0-2

Magnús Björgvinsson slapp einn inn fyrir vörn ÍBV og skoraði. Hann er að tryggja Grindavík sætið í Pepsi-deildinni.



15.37 ÍBV - Grindavík 0-1 - ÞÓR Í FALLSÆTI

Ótrúleg tíðindi úr Vestmannaeyjum! Þjálfarinn Ólafur Örn Bjarnason var að skora með skalla eftir horn og koma sínum mönnum þar með úr fallsæti þegar tæpar tíu mínútur eru eftir af tímabilinu. Þórsarar eru niðri eins og staðan er nú.

Þá var Stjarnan að jafna metin gegn Breiðabliki, staðan þar er 3-3. Ef Stjarnan skorar eitt til viðbótar og vinnur leikinn þá hirða þeir Evrópusætið af ÍBV. Ótrúlegur viðsnúningur á örfáum mínútum.

15.36 Tíu mínútur eftir

Tíu mínútur til leiksloka í Keflavík og ekki mikið að gerast í leiknum. Ef Keflavík eða Grindavík skora mark er Þór á leið niður. Þórsarar verða því að reyna að sækja.

15.35 Átta marka leikur í Árbænum

Jóhann Þórhallson var að skora fyrir Fylki og þar með minnka muninn í 5-3 (!). Það var einnig verið að skora í Kópavogi - Halldór Orri Björnsson að minnka muninn fyrir Stjörnuna í 3-2 fyrir Breiðabliki.

15.24 Stjarnan að tapa - ÍBV að tryggja Evrópusætið

Baráttunni um þriðja sætið og þar með Evrópusæti virðist lokið. Arnar Már Björgvinsson, leikmaður Breiðabliks, er að reynast sínum gömlu félögum í Stjörnunni erfiður. Hann var að skora sitt annað mark og koma Blikum í 3-1 forystu. Ekki nema að Garðbæingar ætli að spýta verulega í lófana á síðustu 25 mínútunum er ljóst að ÍBV er öruggt með sitt Evrópusæti.

Hvort sú staðreynd breyti einhverju í leik ÍBV og Grindavíkur skal ósagt látið.



15.20 Fram - Víkingur 2-1

Jæja, nú kom það. Arnar Gunnlaugsson var að skora úr víti fyrir Fram og fara langleiðina með að gulltryggja sæti Fram í Pepsi-deildinni. Baráttan stendur nú á milli Þórs og Grindavíkur og þar má ekki miklu muna.

15.15 Framarar í færum

Þetta er ekki dagurinn hans Arnars Gunnlaugssonar. Hann var að skjóta í stöng í leik Fram og Grindavíkur og eru þeir bláklæddu því enn aðeins einu stigi frá fallsæti.

15.06 Eyjamenn vaða í færum

Þetta stendur mjög tæpt í Eyjum þar sem heimamenn hafa verið að vaða í færum, bæði í fyrri hálfleik og í upphafi þess síðari. Nú rétt í þessu var Þórarinn Ingi Valdimarsson nálægt því að skora fyrir ÍBV en skot hans yfir af stuttu færi.

15.01 Síðari hálfleikur hafinn

45 mínútur eftir af þessu Íslandsmóti og spennandi að sjá hvort staða liðanna í fallbaráttunni muni breytast mikið á þeim tíma.

14.48 Baráttan um Evrópusæti

Það er einnig verið að berjast á toppnum um sæti í Evrópukeppninni. Liðin í 2. og 3. sæti komast í Evrópukeppnina og er FH öruggt með sitt Evrópusæti þar sem liðið mun aldrei falla neðar en í þriðja sæti.

FH er nú að vinna Fylki, 3-2, og ÍBV að gera jafntefli við Grindavík, 0-0. Stjarnan getur komist upp í þriðja sætið ef ÍBV tapar en Stjörnumenn eru nú undir í sínum leik gegn Breiðabliki, 2-0, og líkurnar á því ekki miklar.

14.47 Hálfleikur

Nú hefur verið flautað til hálfleiks í leikjum dagsins og er ótrúlega mikil spenna í fallbaráttunni. Þór hangir uppi á fleiri skoruðum mörkum en Grindavík og ljóst að það þarf ekki mikið til að breyta stöðunni.

14.40 Fram - Víkingur 1-1

Björgólfur Takefusa hefur jafnað metin fyrir Víking í Laugardalnum. Framarar eru því ekki með jafn góða stöðu og áður en þeir eru búnir að vaða í færum í leiknum og misnota til að mynda vítaspyrnu.

14.20 Tvö varin víti

Tryggvi Guðmundsson var að láta Óskar Pétursson, markvörð Grindavíkur, verja frá sér víti. Þar með hefði hann getað bætt markametið en þess í stað hélt Óskar lífi í fallbaráttu Grindavíkur. Þá var Magnús Þormar að verja vítaspyrnu Arnar Gunnlaugssonar, leikmanns Fram.

14.18 Keflavík - Þór 2-1 - GRINDAVÍK Í FALLSÆTI

Sveinn Elías Jónsson skoraði eftir að boltinn féll fyrir hann í markteignum, eftir misheppnaða hreinsun Guðjóns Árna Antoníussonar. Þetta mark kemur Þór úr fallsæti en tæpar getur það varla staðið. Þór hangir uppi á því að hafa skorað fleiri mörk en Grindavík.

14.16 Keflavík - Þór 2-0 - ÞÓR Í FALLSÆTI

Jóhann B. Guðmundsson að styrkja stöðu Keflavíkur. Hann skoraði með föstu skoti eftir flottan sprett Hilmars Geirs upp miðjuna. Enn versnar staða Þórs og eru norðanmenn nú í fallsæti á markatölu.

14.13 Keflavík - Þór 1-0

Magnús Sverrir Þorsteinsson hefur komið Keflavík yfir gegn Þór með föstu skoti úr vítateig eftir fína sendingu Guðmundar Steinarssonar. Áhyggjuefni fyrir nýliða Þórs.

14.05 Fram - Víkingur 1-0

Steven Lennon var að koma Frömurum yfir í Laugardalnum með flottu skoti í vítateignum. Styrkir stöðu Fram en Grindavík er enn í fallsæti.

14.00 Leikirnir hafnir

Ballið er byrjað! Það hefur verið flautað til leiks í Pepsi-deild karla. Eins og gefur að skilja er Grindavík í fallsæti miðað við stöðutöfluna hér fyrir ofan en hún mun uppfærast við hvert mark sem verður skorað í dag.

13.30 Skyldulesning!

Óskar Ófeigur Jónsson, blaðamaður á Vísi og Fréttablaðinu, hefur hér tekið saman athyglisverðar staðreyndir um gengi félaganna í fallbaráttu fyrri ára og hvað þurfi að hafa í huga í baráttunni í dag. Greinina má lesa hér en hún er skyldulesning fyrir alla þá sem vilja vera með á nótunum.

13.30 Velkomin til leiks!

Hér verður fylgst með gangi mála í fallbaráttunni í Pepsi-deild karla. Hér fyrir ofan verður stöðutaflan uppfærð miðað við stöðuna í leikjunum þremur sem máli skipta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×