Íslenski boltinn

Kraftaverkaklúbbarnir í hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram.
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram. Fréttablaðið/Vilhelm
Fjögur félög glíma við falldrauginn í lokaumferð Pepsi-deildar karla í dag og öll vilja þau forðast það að fylgja Víkingum niður í 1. deildina. Tvö af félögunum fjórum hafa stundað það undanfarna áratugi að bjarga úrvalsdeildarsæti sínu á síðustu stundu. Hér erum við að tala um Fram og Grindavík, réttnefndir kraftaverkaklúbbarnir í karlafótboltanum, sem keppa í dag við Keflavík og Þór um að fá að vera áfram með í Pepsi-deildinni sumarið 2012.

Þetta verður í fyrsta sinn í fjögurra ára sögu tólf liða deildar þar sem fallslagurinn er ekki ráðinn þegar komið er inn í 22. og síðustu umferð sumarsins. Keflavík (-6), Fram (-9) og Þór (-12) hafa öll 21 stig í sætum 8 til 10 en Grindvíkingar eru síðan í fallsætinu með 20 stig. Framarar komust upp úr fallsætinu með 2-1 sigri í Grindavík í síðustu umferð sem var þá fjórði sigur Framliðsins í síðustu sex leikjum.

Öll fjögur bjarga sér með sigriStaðan í dag er ekki flóknari en það að öll liðin fjögur þurfa bara að treysta á sjálfan sig og tryggja sér úrvalsdeildarsætið með sigri. Fram og Keflavík nægir enn fremur aðeins jafntefli og þar spilar inn í að Keflavík og Þór mætast í lokaumferðinni.

Framarar hafa bjargað sér átta sinnum frá falli í lokaumferðinni frá því að þriggja stiga reglan var tekin upp 1984. Framliðið hefur aðeins einu sinni farið niður í lokaumferðinni á þessum tíma og það var sumarið 2005 þegar þeir reyndu sjöunda árið í röð að bjarga sæti sínu á síðustu stundu.

Grindvíkingar björguðu sæti sínu í lokaumferðinni á sex af fyrstu ellefu árum sínum í efstu deild en þeir féllu í eina skiptið þegar þeir voru síðast í þessari stöðu haustið 2006.

Fram og Grindavík þekkja það líka liða best að sleppa við fallið þegar þau sitja í fallsæti fyrir lokaumferðina. Fram hefur fjórum sinnum rifið sig upp úr fallsæti í lokaumferðinni og Grindvíkingar hafa náð því þrisvar sinnum. Eyjamenn (2 sinnum) eru eina félagið að auki sem hefur afrekað slíkt oftar en einu sinni.

Staða Fram var slæm í ágústTakist Fram hins vegar að bjarga sér fengi sú björgun eflaust sér kafla í Framsögunni enda fékk Framliðið aðeins eitt stig í fyrstu sex umferðunum og vann enn fremur aðeins einn sigur í fyrstu fimmtán leikjum sínum.

Eftir tap á móti Þór í 13. umferð 3. ágúst sat Fram á botni deildarinnar með 6 stig og menn voru fyrir löngu farnir að sjá Safamýrarliðið fyrir sér í 1. deildinni næsta sumar. Aðeins Stjörnumenn hafa náð í fleiri stig út úr síðustu sex leikjum og fyrir vikið eru Framarar í góðri stöðu til að bjarga sæti sínu í dag.

Leikur upp á líf eða dauðaHin tvö liðin í fallbaráttunni í dag, Keflvíkingar og Þórsarar, mætast í leik upp á líf eða dauða í Keflavík. Bæði hafa þau 50 prósenta árangur úr slíkri stöðu, Keflavík hefur bjargað sér tvisvar í fjórum tilraunum en Þórsarar hafa bjargað sér einu sinni í tveimur tilraunum.

Bæði eiga þessi lið það sameiginlegt að hafa „bjargað“ sér nokkrum sinnum í sumar að mati flestra en dragast síðan alltaf jafnóðum aftur niður í fallslaginn. Þórsarar þurfa nú að ná í stig á útivöll sem hefur ekki tekist hjá þeim síðan í lok júní. Það er kannski þeim til happs að þeir heimsækja Nettóvöll Keflvíkinga en Keflavíkurliðið hefur aðeins náð í eitt stig út úr síðustu fjórum heimaleikjum sínum.

Það verður mikil spenna í dag á Laugardalsvellinum (Fram-Víkingur), í Keflavík (Keflavík-Þór) og í Vestmannaeyjum (ÍBV-Grindavík) og nú er að sjá hvort Framarar og Grindvíkingar bæti við fleiri björgunarafrekum og miðað við söguna held ég að enginn sé tilbúinn að veðja á móti þeim.

Lykilatriðin í fallbaráttunni í dag:

- Fram og Keflavík nægir jafntefli

- Grindavík og Þór bjarga sér með sigri

- Grindavík (-13) og Þór (-12) eru með slökustu markatöluna

- Keflavík (-6) er með bestu markatöluna

- Fram hefur náð í 10 stig í síðustu 4 leikjum (3 heimasigrar í röð)

- Grindavík vann síðast leik 15. ágúst (6 leikir í röð án sigurs, þar af 4 jafntefli)

- Keflavík hefur fengið 1 stig í síðustu 4 heimaleikjum (3 töp í röð á öllum völlum)

- Þór hefur tapað 5 útileikjum í röð (1 stig í síðustu 8 útileikjum)

Í fallhættu í lokaumferð

Árangur félaga í fallhættu í lokaumferð efstu deildar karla síðan þriggja stiga reglan var tekin upp sumarið 1984. (Lágmark 4 skipti)

Björgunarhlutfall liða:

Fram 89 prósent (8 af 9)

Grindavík 86 prósent (6 af 7)

Víkingur 57 prósent (4 af 7)

Keflavík 50 prósent (2 af 4)

Breiðablik 43 prósent (3 af 7)

Fylkir 25 prósent (1 af 4)

Valur 25 prósent (1 af 4)

Þróttur 25 prósent (1 af 4)

- Lið með þrjú skipti -

ÍBV 100 prósent (3 af 3)

KR 100 prósent (3 af 3)

FH 67 prósent (2 af 3)

KA 33 prósent (1 af 3)

Lið sem hafa bjargað sér úr fallsæti í lokaumferðinni

Fram 4 sinnum (1984, 2000, 2001, 2003)

Grindavík 3 sinnum (1998, 1999, 2005)

ÍBV 2 sinnum (1992, 1993)

Víðir 1 sinni (1985)

Þór 1 sinni (1989)

Keflavík 1 sinni (1996)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×