Enski boltinn

Rooney: Ég fattaði ekki hvað ég var búinn að gera

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney fagnar marki Javier Hernandez í gær.
Wayne Rooney fagnar marki Javier Hernandez í gær. Mynd/AP
Wayne Rooney, framherji Manchester United, hefur sætt sig við það að hafa fengið tveggja leikja bann fyrir að blóta í sjónvarpsvél um leið og hann fagnaði þrennu sinni á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni á dögunum.

„Ég fattaði ekki hvað ég var búinn að gera því þetta voru bara hreinar tilfinningar og ég var að bregðast við því að við vorum búnir að skora þrjú mörk og koma okkur aftur inn í leikinn," sagði Wayne Rooney sem fékk tveggja leikja bann og missir meðal annars af undanúrslitaleik enska bikarsins á móti Manchester City á laugardaginn.

„Um leið og ég áttaði mig á því sem ég hafði gert þá kom ég fram og baðst afsökunar. Ég veit það best sjálfur að ég átti ekki að blóta svona og ég sætti mig því við refsinguna. Vonandi geta strákarnir komið mér til bjargar og tryggt okkur sæti í úrslitaleiknum," sagði Rooney.

Rooney talaði líka um Ryan Giggs í þessu útvarpsviðtali við Richard Keys og Andy Gray hjá TalkSport. „Hann hefur verið frábær fyrir félagið og hann er frábær fyrir ungu leikmennina. Hann er snillingur að mínu mati og ég held að það líði ekki langur tími þar til ég fer að ávarpa hann Sir Ryan," sagði Rooney.

Rooney var sáttur með sjálfan sig í leikjunum á móti Chelsea. „Ég var ánægður með minn leik og að við komust áfram sem mér fannst vera sanngjarnt. Við eigum núna góða möguleika á því að komast í úrslitaleikinn," sagði Rooney.

„Ég er ánægður með mitt form en það vita allir að þetta er búið að vera erfitt tímabil fyrir mig. Ég er farinn að skora aftur og nýt þess að spila nýja stöðu. Ég fær nú boltann miklu meira og finnst ég eiga meiri möguleika á því að hafa áhrif á leikinn. Ég er mjög ánægður," sagði Rooney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×