Innlent

Draumur um einsemd

Mynd/Daníel
Gamlir og nýir andstæðingar EES halda því fram að það sem vont og skaðlegt var fyrir hrun hafi komið með EES-samningnum segir Pawel Bartoszek og bendir á að það yrði galin ákvörðun að segja samningnum upp. Enginn hafi grætt meira á EES en Íslendingar og enginn muni tapa meira á uppsögn samningsins en íslenska þjóðin.

Margt virðist benda til að þrátt fyrir að fjármálakrísan sé alþjóðleg hafi umfang hennar á Íslandi mest með innlendar ákvarðanir að gera.

Margt virðist benda til að þrátt fyrir að fjármálakrísan sé alþjóðleg hafi umfang hennar á Íslandi mest með innlendar ákvarðanir að gera. Vöxtur bankanna var eins og hann var og aðgerðir stjórnvalda til að halda honum í skefjum voru eins og þær voru. Hafi frelsi í fjárfestingum milli landa þannig haft einhver áhrif þá voru það fremur fjárfestingar Íslendinga erlendis sem komu okkur í vanda heldur en fjárfestingar útlendinga á Íslandi.

En í allri þeirri bylgju þjóðernisgeðshræringar sem nú ríður yfir er hætta á því að auðvelt verði fyrir menn á kössum með gjallarhorn að hrópa niður öll tengsl okkar við útlönd. Þeir sem vilja veg Íslands á alþjóðavísu meiri en minni þurfa því að hafa sig alla við við að verja það samstarf sem við tökum þátt í, að ekki sé nú minnst á einhvers konar dýpkun eða útvíkkun þess.

Vonda Schengen?

Á þinginu er nú búið að leggja fram beiðni um að skoða kosti og galla þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Það getur verið erfitt að andmæla ákalli um að eitthvað sé skoðað vel. Hver vill það ekki? En þegar slíkar beiðnir eru settar fram, sérstaklega í kjölfar frétta af afbrotum útlendinga á Íslandi, er ef til vill ástæða til að óttast að eitthvað fleira búi að baki. Munu fleiri framvegis tala fyrir því að öryggi landsins verði best tryggt með því læsa hliðinu og hlaða riffilinn?

Schengen-samstarfið veitir okkur aðgang að öflugu upplýsingakerfi evrópskra löggæslusveita og styttir íslenskum farþegum biðina, jafnt í Leifsstöð, sem og í erlendum flugstöðvum. Þá er mikilvægt að átta sig á því að þátttaka okkar í EES takmarkar, til allrar hamingju, möguleika okkar á að halda fólki, alla vega evrópsku fólki, frá landinu. Við getum til dæmis ekki farið að krefja alla evrópska ferðamenn um heilbrigðisvottorð, sakavottorð eða vegabréfsáritun, svo lengi sem við erum í EES. Og ef við í einhverju bræðikasti gengjum úr EES og færum að krefjast allra þessa hluta þá gætum við átt von á því að fá svipaða meðhöndlun á móti. Það væri hryllileg lífskjaraskerðing fyrir okkur öll.

Vonda EES?

Aðild okkar að EES-samstarfinu var, eins og þekkt er, ekki óumdeild á sínum tíma. Hún var samþykkt á þingi með 33 atkvæðum og vel yfir þrjátíu þúsund kjósendur kröfðust þess að fá að kjósa um hana í þjóðaratkvæðagreiðslu. Miðað við þau fordæmi sem síðar hafa verið sköpuð má telja nokkuð líklegt að aðildin hefði verið send í þjóðaratkvæði ef persónu núverandi forseta hefði notið við, og líklega hefði verið tvísýnt um samþykki hennar í slíkri atkvæðagreiðslu. Þær vangaveltur eru kannski til lítils nú, hún var samþykkt og það er gott.

EES-samningurinn er síðri en ESB-aðild. Við tökum hvorki þátt í samevrópska tollsvæðinu né í landbúnaðarsamstarfinu. Íslendingar mega ekki kaupa danskt smjör. Þeir þurfa að kaupa íslenskt smjör því íslenskir stjórnmálamenn vilja hafa það þannig. Vefverslun til landsins er heft og tollverðir leita í töskum ferðamanna. Við sitjum uppi með mynt sem við þurfum leyfi og ástæðu til að skipta í aðra mynt. Við sitjum líka uppi með stjórnmálamenn sem telja það fyrirkomulag sérstaka blessun fyrir okkur öll. Við fáum ekki aðkomu að ákvörðunum innan ESB. ESB væri betra en EES. En EES er samt svo margfalt, margfalt betra en ekki neitt.

Þegar ríki opna á fjárfestingar yfir landamæri spáir alltaf einhver því að menn í öðrum ríkjum muni koma og kaupa upp allt það besta í þeirra ríki. Þjóðverjar muni kaupa upp sumarhús á Jótlandi. Svipuðu var spáð á Íslandi þegar EES-samningurinn var gerður. En í reynd voru það frekar Íslendingar sem nýttu sér, jafnvel um of, mætti einhver segja, það fjárfestingafrelsi sem EES-samningurinn veitti þeim. Hræðsluáróðurinn um möguleg allsherjaruppkaup útlendinga á íslenskum jörðum og fyrirtækjum, sem reynt var að tefla fram við gildistöku EES-samningsins, reyndist innantómur.

Þrátt fyrir deilur í upphafi hafði í á hálfan annan áratug ríkt tiltölulega breið sátt um EES-samninginn. Nú má hins vegar oftar heyra þá skoðun að samningurinn hafi átt einhvern þátt í því hvernig fyrir Íslendingum sé komið. Það má líka oftar heyra þá skoðun að ef Íslandi verði með einhverjum hætti gert að greiða lágmarksupphæð innistæðutrygginga til breskra og hollenskra innistæðueigenda þá sé EES-samstarfið ekki þeirra peninga virði. Þannig eru gamlir og nýir EES-andstæðingar að undirbúa fólk undir það að EES-samstarfinu verði sagt upp. Það yrði galin ákvörðun.

Íslenskar alþjóðastofnanir

Nú liggur fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA hefur kært Ísland til EFTA-dómstólsins vegna IceSave-deilunnar. Í ljósi umræðunnar þarf að koma því á hreint að umræddar stofnanir eru ekki ESB-stofnanir. Þær eru hluti af EES-samningnum og eru reknar af EFTA-ríkjunum þremur sem taka þátt í EES, Íslandi, Noregi og Liechtenstein. Stofnanirnar tvær eru eins íslenskar og alþjóðastofnanir geta orðið. Það eru þrír dómarar við EFTA-dómstóllinn, einn tilnefndur af hverju ríkjanna þriggja. Fimm af fimmtán starfsmönnum dómsins eru Íslendingar. EFTA-ríkin þrjú tilnefna hvert um sig einn fulltrúa í þriggja mann stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA. Af þeim 75 nöfnum starfsmanna Eftirlitsstofnunar EFTA sem finna má á heimasíðu stofnunarinnar eru 15 íslensk.

Þessi tölfræði skiptir vitanlega litlu fyrir málflutning Íslands og er aðallega sett fram til fróðleiks. En stóri punkturinn er að þetta eru þær stofnanir sem við sjálf settum upp til að gæta EES-samningsins. Komist þær að þeirri niðurstöðu að við fylgjum honum ekki eftir þá leika menn sér að ekki að því að hafa þá niðurstöðu að engu.

Tólf núll

Saga málareksturs frammi fyrir EFTA-dómstólnum gefur tilefni til fremur dempaðrar bjartsýni. Af þeim þrettán málum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur vísað á hendur Íslandi til dómstólsins hefur í eitt skipti verið fallið frá málarekstrinum eftir að Ísland gerði nauðsynlegar breytingar á íslenskum lögum. Hin tólf málin hafa öll tapast. Við skulum auðvitað vona að raunin verði önnur nú.

Tapist málið fyrir EFTA-dómstólnum getur ýmislegt gerst. Ef trúa á málflutningi talsmanna dómstólaleiðarinnar þá ættu Bretar og Hollendingar að höfða mál fyrir íslenskum dómstólum. Sjáum til. En fari það á endanum svo að íslenska ríkið verði fyrir íslenskum dómstól, og á grundvelli íslenskra laga dæmt til að greiða einhverjum bætur vegna mistaka sem skrifast á íslensk stjórnvöld, íslenskan seðlabanka og íslenskt fjármálaeftirlit; þá væri það varla rökrétt skref að segja upp EES-samstarfinu í kjölfarið. Né myndi það auðvitað breyta nokkru um niðurstöðu dómsins þegar þangað væri komið.

Sjálfsviðskiptabann

Íslendingar tóku, á sínum tíma og með sínum hætti, ákvörðun um að fara mögulega í dómsmál út af IceSave. Þeirri ákvörðun fylgdi áhætta. Sem betur fer bendir nokkuð til að með batnandi heimtum úr þrotabúi Landsbankans verði fjárhagslegt tap skattgreiðenda, jafnvel þótt málið tapist, mun minna en hinar mjög svo myrku spár í upphafi bankahrunsins gerðu ráð fyrir. Í raun þarf ekki að óttast peningalegar afleiðingar slíks ósigurs og jafnmikið og þær pólitísku. Og þá er ekki átt við þá afar takmörkuðu áhættu á því að ESB, með öll sín vandamál fari að reka Ísland úr EES. Mun frekar má óttast að við þær aðstæður færum við að asnast til að segja honum upp sjálf.

Erlendir dómstólar, evrópsk lög, breskir sparifjáreigendur. Þetta eru ekki okkar mál. Við höfum ekkert með neitt af þessu að gera," myndu menn segja og ganga svo úr EES. Það væri miður viturlegt: Að ætla sér að refsa öðrum með því að setja sjálfan sig í viðskiptabann.

Sjálfstæð eða einstæð?

Stærstan hluta lýðveldissögunnar hafa Íslendingar lifað við gjaldeyrishöft, og ýmsar aðrar skrýtnar hindranir á viðskipti fyrirtækja og almennings. Hinu stutta tímabili sæmilegs haftaleysis lauk með því að allt fór í steik. Menn fara að tengja saman og álykta ranglega að Íslendingar séu ekki færir um að þrífast innan eðlilegs markaðshagkerfis. Og menn fara að álykta að það sem vont og skaðlegt var fyrir hrun hafi komið með EES-samningnum. Frá útlöndum.

Menn fara að leggja til að Schengen og EES verði sagt upp. Hvað svo? Á að láta Evrópubúa sækja um vegabréfsáritanir, setja upp þjóðernisfýlutolla á allt sem frá ESB kemur og ætlast til að allir erlendir fjárfestar þurfi að standast manngæskupróf innanríkisráðherra til að fá að kaupa hér jarðir eða fyrirtæki? Á að hætta að bjóða út opinberar framkvæmdir? Herða gjaldeyrishöftin? Setja aftur hærri skatt á erlendar bækur? Allt þetta væri galið. Enginn hefur grætt meira á EES en við sjálf. Enginn mun tapa meira á uppsögn þess en við sjálf.

Yrðu endalok EES heimsendir? Vitanlega ekki. Með tíma sæju menn að sér. Smám saman yrði samið um ferðafrelsi Íslendinga til útlanda, síðan atvinnufrelsi, síðan kannski frjálsa vöruflutninga og gagnkvæmar heimildir til fjárfestinga. Einhvern tímann fengjum við kannski næstum því jafngóðan samning og EES-samningurinn er nú þegar. Kannski eftir áratug einangrunar og vitleysu. En það er áratugur sem ég kysi helst að vera án.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×