Innlent

Erfið færð á flestum vegum landsins

Mynd/Valgarður
Hálka og snjóþekja er á flestum vegum landsins um þessar mundir. Vegagerðin ræður fólki eindregið frá því að ráðast í ferðalög seint á kvöldin við svona aðstæður enda má búast við að flestir vegir teppist þegar líða tekur á kvöldið.

Þjónusta er á ákveðnum vegum alla nóttina, til að mynda eru Reykjanesbrautin og Hellisheiðin ruddar reglulega. Þjónusta á öðrum vegum kann að leggjast niður yfir nóttina.

Frekari upplýsingar um færð og ástand má nálgast hjá Vegagerðinni í síma 1777 eða á vef Vegagerðarinnar en hér að neðan fer yfirlit yfir færð á helstu vegum landsins.

Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Á Suðurlandi er hálka á flestum leiðum þó er þæfingur og snjóþekja á fáfarnari leiðum.

Hálka er á Reykjanesbraut og á Grindarvíkurvegi sem og víðast á Suðurnesjunum. Þæfingsfærð er á Suðurstrandavegi.

Á Vesturlandi er víðast hvar hálka, snjóþekja, éljagangur og snjókoma. Hálka og éljagagnur er á Fróðárheiði og Vatnaleið og hálka á Bröttubrekku og snjóþekja og éljagangur er á Holtavörðuheiði.

Á Vestfjörðum er víðast hvar hálka eða snjóþekja. Hálka og skafrenningur er á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði.

Á Norðurlandi er víða snjóþekja, hálka, snjókoma og éljagangur. Hálka og éljagangur er á Öxnadalsheiði og hálkublettir og éljagangur er á Víkurskarði.

Á Norðaustur- og Austurlandi er víðast hvar hálka en sumstaðar snjóþekja. Hálka og skafrenningur er á Hólasandi.

Þæfingsfærð og skafrenningur er á kafla austan við Höfn. Snjóþekja eða þæfingur er á fáeinum útvegum.

Á Suðausturlandi er snjóþekja eða hálka. Þæfingsfærð er á nokkrum fáfarnari leiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×