Innlent

Stórkostlegt að hafa svona góð áhrif á nemendur

Erla Hlynsdóttir skrifar
Kynjafræði er kennd sem valfag við fjóra framhaldsskóla á landinu. Frumkvöðull á sviði kynjafræðikennslu í framhaldsskólum segir að auka þurfi framboðið. Dæmi eru um að biðlistar séu á námskeiðin.

Borgarholtsskóli var árið 2007 fyrsti framhaldsskólinn til að bjóða upp á valnámskeið í kynjafræði.

Jón Karl Einarsson, nemandi við skólann, lýsti því yfir í aðsendri grein í Fréttablaðinu að eftir að sitja námskeið í kynjafræði hafi hann hreinlega hætt að vera karlremba. Kennarinn hans er afar stoltur.

Hvernig tilfinning er að hafa þetta mikil áhrif á nemendur?

„Stórkostleg náttúrulega. Algjörlega stórkostleg. Þau eru ótrúlega dugleg að hvetja mig áfram. Þau senda mér svona rapport í lok hverrar annar í kynjafræðinni þar sem þau segja: Hanna gerðu þetta að skyldufagi, láttu kenna þetta í öllum skólum, byrjaðu í grunnskóla," segir Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kennari.

Hanna Björg er frumkvöðull þegar kemur að kynjafræðinámi í framhaldsskólum og hefur hún sjálf þróað námskeiðið sitt. Hún segir að stelpur sem sitja námskeiðið tali um að þær losni undan samfélagslegum þrýstingi, meðal annars hvað varðar staðalmyndir. „Og strákarnir upplifa þetta líka, þessi karlmennskupressa, hún kemur alveg með verðmiða líka," segir Hanna Björg.

Eftir að Hanna Björg byrjaði að kenna kynjafræði hefur verið boðið upp á valnámskeið í Kvennaskólanum, Menntaskólanum á Akureyri, Verslunarskólanum og til stendur að kenna kynjafræði við Menntaskólann á Laugavatni.

Hún segir sannarlega þurfa að auka framboðið. „Algjörlega. Ég minni á að það eru landslög í þessu landi sem kveða á um það að jafnréttisfræðsla skuli fara fram á öllum skólastigum. Þessu hefur ekki verið sinnt nema í ogguponsu mæli. Þetta er brýnasta verkefnið í menntamálum á Íslandi," segir Hanna Björg.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.