Erlent

Pýramídinn mikli í Giza lokaður vegna 11.11.11

Pýramídinn mikli í Giza.
Pýramídinn mikli í Giza. mynd/WIKIPEDIA
Yfirvöld í Egyptalandi lokuðu fyrir aðgang að Pýramídanum mikla í Giza í dag. Sögusagnir voru um að nokkrir hópar hefðu skipulagt helgiathafnir í pýramídanum í tilefni af einkennilegri dagsetningu - 11.11.11.

Eftir að sögusagnirnar komust í hámæli kröfðust margir þess að Pýramídanum mikla yrði lokað í dag.

En talsmaður Umboðsskrifstofu forngripa í Egyptalandi sagði að lokunin kæmi einungis til vegna viðhaldsverkefna á pýramídanum.

Pýramídinn mikli í Giza er sá stærsti í Egyptalandi. Af sjö undrum veraldar er pýramídinn sá eini sem enn stendur. Hann geymir grafhvelfingu faraósins Khufu.

Samkvæmt AP fréttastofunni voru miklar öryggisráðstafanir í kringum pýramídann í dag.

Ali al-Asfar, stjórnandi pýramídanna í Giza, sagði að ekkert óvanalegt hefði gerst í dag og að þegar klukkan sló ellefu mínútur yfir ellefu hefði allt verið með kyrrum kjörum.

Talnaspekingar hafa beðið dagsins með óþreyju en margir telja dagsetninguna 11.11.11 hafa sérstaka þýðingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×