Innlent

Mannréttindanefnd skoðar Twitter-mál Birgittu

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.
Mannréttindanefnd Alþjóðaþingmannasambandsins hefur tekið mál Birgittu Jónsdóttur til umfjöllunar í kjölfar kröfu bandarískra stjórnvalda um aðgang að persónulegum upplýsingum Birgittu á samskiptamiðlum, þ.m.t. Twitter að því er greinir frá í tilkynningu frá Hreyfingunni.

Þar segir að á þingi sambandsins í Bern þann 19. október síðastliðinn hafi ályktun varðandi málið verið samþykkt samhljóða.

Í ályktuninni er málið rakið frá janúar 2011 þegar Birgittu barst tilkynning um dómsúrskurð dómstóls í Virginíu þess eðlis að Twitter væri gert að veita bandarískum stjórnvöldum aðgang að persónulegum upplýsingum um hana. 

Talið er að aðgerðir bandarískra stjórnvalda tengist birtingu myndbandsins Collateral Murder sem Birgitta tók þátt í að framleiða með Wikileaks.  Í myndbandinu má sjá bandaríska hermenn skjóta á borgara úr þyrlu í Írak.

Í ályktun sambandsins er mannréttindanefndinni falið að halda áfram að vinna í málinu og skila skýrslu um það í mars - apríl 2012. Þá er framkvæmdastjórn sambandsins gert að hafa samband við yfirstjórn bandaríska þingsins, sem og þess íslenska, í því skyni að láta í ljós áhyggjur sambandsins af málinu og óska eftir afstöðu umræddra aðila til þess og hugsanlegrar sakamálarannsóknar á gjörðum Birgittu Jónsdóttur.

Á miðvikudaginn kemur mun Birgitta funda með Íslandsdeild Evrópuráðsins málsins vegna málsins.

Hér má finna ályktun sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×