Innlent

Verulegar hækkanir framundan í Laxveiðinni

Verulegar hækkanir á laxveiðileyfum virðast vera framundan eftir nokkra verðstöðnun eftir hrun. Innlendir veiðimenn halda hlut sínum þrátt fyrir kreppuna.

Þannig er hæsta tilboð í veiðileyfin í Þverá-kjarrá í Borgarfirði 120 milljónir á ári í nýafstöðnu útboði, sem er hækkun um 20 til 30 milljónir króna. Hæsta boð í Laxá á Ásum mun vera um 28 milljónir á ári, sem er stökk uppávið frá því sem verið hefur, þannig að hún heldur ótvírætt fyrsta sætinu sem dýrasta laxveiðiá landsins, miðað við stangarfjölda, en þar er aðeins veitt á tvær stangir.

Fréttastofunni er kunnugt um hækkanir í fleiri ám, ekki síst þeim sem voru hvað dýrastar fyrir. Einnig verða að minnsta kosti Grímsá og Norðurá lausar til útboða eftir næstu vertíð og eru þegar orðnar vangaveltur um harðan slag, sem endar að líkindum í hækkunum þar.

Athygli vekur að fyrst eftir hrun féllu úr gildi nær allar pantanir banka og fjármálafyrirtækja, en að langmestu leyti voru það innlendir veiðimenn, sem fylltu þau skörð, öllum að óvörum.

Hefur það haldist nokkurnveginn síðan, því erlendum veiðimönnum hefur fjölgað sáralítið að sögn kunnugra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×