Innlent

Furða sig á sorastyrk Óla Geirs: Beittu sér ekkert gegn kvöldinu

Óli Geir.
Óli Geir.
Sorastyrkurinn.
Femínistafélag Íslands lét 50 þúsund króna sorastyrk renna til nýstofnaðs vændisathvarfs Stígamóta. Það var Ólafur Geir Jónsson, sá sem var aðalvítaminsprautan að baki Dirty Weekend kvöldi á Players á laugardaginn, sem lagði féð inn á reikning Femínistafélagsins.

Reyndar furðar Femínistafélagið sig á því að hann hafi lagt féð inn á reikning félagsins, en í tilkynningu sem félagið sendi frá sér kemur fram að þær hafi á engan hátt beitt sér gegn „sorakvöldinu" eins og þær kallað það.

Aftur á móti taka þær heilshugar undir þá gagnrýni sem fram kom gegn kvöldinu, sem „eru niðurlægjandi fyrir alla sem að þessari „skemmtun" standa," eins og segir í tilkynningunni.

Óli Geir getur því unað sáttur við sitt samkvæmt tilkynningu Femínistanna, því styrkurinn mun eflaust koma í góðar þarfir við að hjálpa fórnarlömbum vændis- og klámiðnaðarins.

Hér fyrir neðan má svo lesa yfirlýsingu Femínistafélagsins:

Femínistafélagið rakst á óverðskuldaða 50 þúsund króna gjöf frá Óla Geir, sorakvöldstjóra, á reikningi sínum en Óli Geir hefur tjáð sig um þetta örlæti sitt í fjölmiðlum.

Femínistafélagið beitti sér á engan hátt gegn Sorakvöldinu og skilur því ekki fyrir hvað Óli Geir er að þakka því. Það skal þó tekið skýrt fram að félagið tekur af heilum hug undir þá gagnrýni sem kom fram á Sorakvöldið m.a. frá jafnréttisnefnd Kópavogs. Sú hlutgerving kvenna og klámvæðing sem eru einkennandi fyrir Sorakvöldin eru niðurlægjandi fyrir alla sem að þessari „skemmtun" standa.

Femínistafélagið hefur ákveðið að láta upphæðina renna til nýstofnaðs vændisathvarfs Stígamóta þar sem það kemur vonandi í góðar þarfir við að hjálpa fórnarlömbum vændis- og klámiðnaðarins. Vændis- og klámiðnaðurinn er tengdur órjúfanlegum böndum og gerir út á vanvirðingu mannhelginnar.

Þeim sem hafa áhuga á að styrkja vændisathvarfið er bent á að hafa samband við Stígamót stigamot@stigamot.is.


Tengdar fréttir

Óli Geir styrkti Feministafélagið um 50 þúsund

Ólafur Geir Jónsson, sá sem var aðalvítaminsprautan að baki Dirty Weekend kvöldi á Players á laugardaginn, lagði í kvöld inn 50 þúsund króna styrk inn á reikning Feministafélags Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×