Innlent

Fjáraukalögin samþykkt - samið um fjármögnun Vaðlaheiðarganga

Mynd/GVA
Alþingi hefur veitt fjármálaráðherra heimild til að gera samning um fjármögnun Vaðlaheiðarganga um allt að einum milljarði króna. Fjáraukalög ársins 2012 voru samþykkt með tuttugu og níu atkvæðum en flestir stjórnarandstöðuþingmenn mættu ekki til atkvæðagreiðslunnar eins og áður hafði verið boðað.

Alþingi samþykkti fjáraukalögin í morgun en tuttugu og níu þingmenn greiddu atkvæði með þeim, fjórir sátu hjá en Siv friðleifsdóttir, þingmaður framsóknarflokksins var sú eina sem greiddi atkvæði gegn lögunum. Þrjátíu og fjórir þingmenn voru í salnum en til þess að atkvæðagreiðsla geti farið fram á Alþingi þurfa þrjátíu og tveir að vera í salnum. Flestir stjórnarandstöðuþingmenn mættu ekki á fundinn í morgun til að mótmæla vinnubrögðum meirihlutans við afgreiðslu fjáraukalagana.

Í morgun voru jafnframt tvær breytingatillögur samþykktar í fjáraukalögunum.

Önnur veitti fjármálaráðherra heimild til að gera samning um fjármögnun Vaðlaheiðarganga og hin veitir honum lántökuheimild fyrir allt að einum milljarði króna.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður vinstri grænna, sat hjá við atkvæðagreiðsluna en hún taldi ekki tímabært að veita eða nýta þessa lántökuheimild.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði ráðuneyti sitt ætla að leita til utanaðkomandi aðila til að fá sjálfstætt mat á forsendum framkvæmdarinnar og sjálfbærni verkefnisins.

Björgvin G. Sigurðsson sagði heimild ráðherra í lögunum vera mikið ánægjuefni og göngin eiga eftir að verða mikil búsetu- og öryggisbót á svæðinu.

Og forsætisráðherra sagði ástæðu þess að ríkisstjórnin hafi nú ákveðið að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga vera samstöðu með heimamönnum á svæðinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×