Innlent

Gagnrýna Ísland fyrir að fangelsa börn með fullorðnum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna gagnrýnir að íslensk stjórnvöld hafi enn ekki tryggt með lögum að börn í varðhaldi séu aðskilin frá fullorðnum. Heilt yfir sér nefndin Íslands hins vegar sem eins konar fyrirmynd þegar kemur að málefnum barna.

Niðurstöður barnaréttarnefndarinnar vegna framkvæmdar Íslands á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, voru kynntar á fundi á vegum innanríkisráðuneytisins í morgun.

Samkvæmt fyrri tillögum nefndarinnar var mælst til þess að fangar undir átján ára aldri yrðu ekki vistaðir með fullorðnum. Þessi tillaga er ítrekuð nú þar sem hún hefur enn ekki komið til framkvæmda.

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, fór fyrir sendinefnd Íslands sem sat fyrir svörum um framkvæmdina á fundi í Genf í lok september.

Þó ekki hafi allar tillögur nefndarinnar orðið að veruleika, lofaði hún það starf sem unnið er á Íslandi í málefnum barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×