Innlent

Útvarpsstjóra barst hvítt duft í pósti

Boði Logason skrifar
Páll Magnússon útvarpsstjóri
Páll Magnússon útvarpsstjóri
„Ég held að það sé betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og ekki gefa sér að þetta sé grín eða eitthvað svoleiðis," segir Páll Magnússon útvarpsstjóri sem fékk torkennilegt bréf frá Marokkó sent á skrifstofu sína í gær. Í bréfinu var miði með arabísku letri og þá var einnig hvítt duft í umslaginu. Nokkur viðbúnaður var í Útvarpshúsinu í gær eftir atvikið.

„Ég var ekki á staðnum þegar þetta bréf barst en aðstoðarkonan mín tók bréfið og opnaði það, eins og vera ber. Þegar hún opnar það sér hún að þar er miði með arabísku letri og poka með hvítu dufti. Hún gerði rétt, lokaði umslaginu og límdi fyrir og hringdi á lögregluna," segir Páll en lögreglan fór með bréfið á rannsóknardeild Landspítalans í veiru- og smitsjúkdómafræðum.

Á vef RÚV segir að í dag hafi niðurstöður borist og það reynst vera hveiti eða annað skaðlaust efni. „Það sem ég fékk að vita í gær benti allt til þess að þetta væri skaðlaust," segir Páll en á bréfinu var letur sem benti til þess að það hefði verið sent frá Marokkó. „Það er svo sem ekkert staðfest, það á eftir að skoða það betur, hvort að það sé einhver póststimpill frá Marokkó."

Þetta er í annað sinn sem bréf af þessu tagi berst á skrifstofu RÚV en árið 2001, skömmu eftir hryðjuverkaárásirnar á Tvíburaturnana, barst bréf með hvítu dufti inn í Útvarpsshúsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×