Innlent

Helgi segist ekki hafa gengið of langt í gagnrýni á Bankasýsluna

Mynd7Vilhelm
Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segist ekki hafa gengið of langt í gagnrýni sinni á stjórn bankasýslu ríkisins. Stjórnin sagði af sér í gær en Helgi segir nauðsynlegt að endurreisa trúverðugleika stofnunarinnar. Þingmaður Sjálfstæðisflokks vill hins vegar að hún verði lögð niður.

Stjórn bankasýslu ríkisins fór þess á leit við fjármálaráðherra í gær að vera leyst frá störfum vegna þeirrar umræðu sem hefur skapast í kringum ráðningu Páls Magnússonar í starf forstjóra. Í bréfi sem stjórnin sendi ráðherra kemur fram að umræðan hafi vegið að trúverðugleika stofnunarinnar og rofið friðinn um starfsemi hennar. Var sértaklega vísað í viðbrögð alþingismanna í þessu samhengi en Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sagði að ráðningin væri hneyksli. Helgi segist ekki hafa gengið of langt í gagnrýni sinni.

„Það er hlutverk mitt sem alþingismaður að gagnrýna það ef mistök eru gerð. Ef athafnir manna þola ekki þá gagnrýni bendir það til þess að þær gjörðir hafi ekki verið byggðar á traustum grunni."

Helgi segir það vera næsta verkefni að endurreisa trúverðuleika stofnunarinnar, trúverðugleika sem stofnunin hafi tapað. Hann segir að sá trúverðugleiki hafi ekki tapast vegna umræðunnar um málið.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður sjálfstæðisflokks, segir að bankasýslan hafi verið stofnuð til að koma í veg fyrir afskipti stjórnmálamanna að bönkunum. Umræðan í kringum ráðningu Páls hafi hins vegar sýnt að ekki hafi tekist að uppfylla það markmið. Hann vill að fjármálaráðuneytið taki yfir verkefni stofnunarinnar.

„Ég tel að þetta sé alveg óþarfa milliliður við sjáum það núna að þessi upphaflega hugmynd um armslengdarsjónarmið það er ekki nóg fyrir pólitíkusana. þeir eru tilbúnir að ganga ansi langt til að skipta sér af málum bankasýslunnar og ég held að nú sé góður tími til að leggja hana niður," segir Tryggvi.

Hann vill að fjármálaráðuneytið taki yfir verkefni stofnunarinnar.


Tengdar fréttir

Páll fundaði með stjórn Bankasýslunnar

Stjórn Bankasýslu ríkisins fékk Pál Magnússon, nýráðinn forstjóra, á fund sinn á mánudagskvöld. Á fundinum var meðal annars skipst á skoðunum um þá gagnrýni sem ráðningin hefur fengið og rætt um hvenær Páll getur hafið störf sem forstjóri. Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslunnar, segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar á fundinum, sem var sá fyrsti og eini sem stjórnarmenn hafa átt með Páli eftir að tilkynnt var um ráðningu hans.

Stjórn Bankasýslunnar biðst lausnar

Stjórn Bankasýslu ríkisins hefur beðist lausnar frá störfum. Ástæðan er afskipti utanaðkomandi afla af ráðningu Páls Magnússonar, fyrrverandi aðstoðarmanns Valgerðar Sverrisdóttur, í starf forstjóra stofnunarinnar.

Páll verður forstjóri að öllu óbreyttu

Stjórn Bankasýslu ríkisins fékk Pál Magnússon, nýráðinn forstjóra, á fund sinn á mánudagskvöld. Þetta staðfestir Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslunnar. Á fundinum var meðal annars rædd sú gagnrýni sem komið hefur fram á ráðninguna.

Segja utanaðkomandi afskipti ástæðu afsagnarinnar

"Það er mat stjórnarinnar að utanaðkomandi afskipti af ákvörðun um ráðningu Páls Magnússonar sem forstjóra stofnunarinnar geri að verkum að henni sé ekki lengur sætt," segir í tilkynningu til fjölmiðla vegna afsagnar stjórnar Bankasýslu ríkisins í dag. Stjórnin sagði af sér í dag eftir mikla gagnrýni vegna ráðningar Páls Magnússonar í stöðu forstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×