Viðskipti innlent

Páll verður forstjóri að öllu óbreyttu

Páll Magnússon
Páll Magnússon
Stjórn Bankasýslu ríkisins fékk Pál Magnússon, nýráðinn forstjóra, á fund sinn á mánudagskvöld. Þetta staðfestir Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslunnar. Á fundinum var meðal annars rædd sú gagnrýni sem komið hefur fram á ráðninguna.

Þetta var fyrsti og eini fundurinn sem stjórn Bankasýslunnar hefur haldið með Páli eftir að tilkynnt var um ráðningu hans, fyrir rúmum mánuði.

Uppsagnarfrestur Páls sem bæjarritari Kópavogs er þrír mánuðir, en meðal þess sem var rætt á þessu fundi var hvenær hann getur hafið störf.

Þorsteinn segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar á fundinum.

Fundurinn var haldinn daginn eftir að RÚV flutti fréttir af því að Páll yrði ekki forstjóri þrátt fyrir að hafa þegar verið ráðinn, nokkuð sem Þorsteinn segist ekki kannast við.

Uppsagnarfrestur fráfarandi forstjóra Bankasýslunnar, Elínar Jónsdóttir, rennur út um áramót og því mögulegt að Páll hefji ekki störf fyrr en þá. Þorsteinn segir þó vonir standa til að hann hefji störf fyrr.

Eins og fréttastofa greindi frá í gær kom Páll á fund Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, mánudaginn 10. október þar sem ráðherra gerði grein fyrir sínum sjónarmiðum varðandi ráðninguna. Þorsteinn var einnig á þeim fundi.

Samkvæmt Þorsteini bendir ekkert til annars en að Páll hefji störf sem forstjóri innan tíðar.

Fyrir hádegi í gær sagði Þorsteinn að málefni Páls hefðu ekki verið rædd á fundum nefndarinnar á vikunni.


Tengdar fréttir

Páll Magnússon fundaði með Steingrími

Páll Magnússon, nýráðinn forstjóri Bankasýslu ríksins, fundaði með Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, þann 10. október síðastliðinn, þar sem ráðherrann kom sjónarmiðum sínum á framfæri. Fundurinn var haldinn fyrir milligöngu Þorsteins Þorsteinssonar, stjórnarformanns Bankasýslu ríkisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×