Viðskipti innlent

Segja utanaðkomandi afskipti ástæðu afsagnarinnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Það er mat stjórnarinnar að utanaðkomandi afskipti af ákvörðun um ráðningu Páls Magnússonar sem forstjóra stofnunarinnar geri að verkum að henni sé ekki lengur sætt," segir í tilkynningu til fjölmiðla vegna afsagnar stjórnar Bankasýslu ríkisins í dag. Stjórnin sagði af sér í dag eftir mikla gagnrýni vegna ráðningar Páls Magnússonar í stöðu forstjóra.

Í tilkynningunni ítrekar stjórn Bankasýslunnar að sú ákvörðun að bjóða Páli starf forstjóra Bankasýslu ríkisins hafi verið byggð á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum þar sem eiginleikar og hæfileikar Páls til að sinna starfinu hafi legið til grundvallar. Stjórnin segir að viðbrögð alþingismanna bendi til þess að erfitt verði fyrir stofnunina að starfa með eðlilegum hætti að þeim mikilvægu og vandasömu verkefnum sem henni sé ætlað að sinna og framundan eru.

„Stjórn Bankasýslu ríkisins hefur alla tíð leitast við að framfylgja eigendastefnu ríkisins og starfa í samræmi við lög um Bankasýslu ríkisins. Það er að mati stjórnarinnar grundvallaratriði, eigi hún áfram að geta sinnt hlutverki sínu með trúverðugum hætti, að hún njóti óskoraðs trausts og geti starfað sjálfstætt eins og lög um Bankasýslu ríkisins gera ráð fyrir," segir í tilkynningunni.




Tengdar fréttir

Páll fundaði með stjórn Bankasýslunnar

Stjórn Bankasýslu ríkisins fékk Pál Magnússon, nýráðinn forstjóra, á fund sinn á mánudagskvöld. Á fundinum var meðal annars skipst á skoðunum um þá gagnrýni sem ráðningin hefur fengið og rætt um hvenær Páll getur hafið störf sem forstjóri. Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslunnar, segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar á fundinum, sem var sá fyrsti og eini sem stjórnarmenn hafa átt með Páli eftir að tilkynnt var um ráðningu hans.

Stjórn Bankasýslunnar biðst lausnar

Stjórn Bankasýslu ríkisins hefur beðist lausnar frá störfum. Ástæðan er afskipti utanaðkomandi afla af ráðningu Páls Magnússonar, fyrrverandi aðstoðarmanns Valgerðar Sverrisdóttur, í starf forstjóra stofnunarinnar.

Páll Magnússon fundaði með Steingrími

Páll Magnússon, nýráðinn forstjóri Bankasýslu ríksins, fundaði með Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, þann 10. október síðastliðinn, þar sem ráðherrann kom sjónarmiðum sínum á framfæri. Fundurinn var haldinn fyrir milligöngu Þorsteins Þorsteinssonar, stjórnarformanns Bankasýslu ríkisins.

Óska eftir rökstuðningi fyrir ráðningu Páls

Umsækjendur um stöðu forstjóra Bankasýslu ríkisins hafa óskað eftir rökstuðningi fyrir ráðningu Páls Magnússonar í stöðu forstjóra stofnunarinnar. Páll Magnússon, fyrrverandi aðstoðarmaður iðnaðarráðherra, var ráðinn í starfið en hann er með BA próf í guðfræði og meistarapróf í opinberri stjórnsýslu. Aðrir umsækjendur höfðu menntun sem var sérsniðnari að störfum í bankakerfinu.

Páll verður forstjóri að öllu óbreyttu

Stjórn Bankasýslu ríkisins fékk Pál Magnússon, nýráðinn forstjóra, á fund sinn á mánudagskvöld. Þetta staðfestir Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslunnar. Á fundinum var meðal annars rædd sú gagnrýni sem komið hefur fram á ráðninguna.

Tæp 90% telja ráðningu Páls Magnússonar óeðlilega

89 prósent þeirra landsmanna, sem tóku afstöðu, telja að óeðlilega hafi verið staðið að ráðningu Páls Magnússonar bæjarritara Kópavogsbæjar í stöðu forstjóra Bankasýslu ríkisins.

Stjórn Bankasýslunnar ver ráðningu Páls

Stjórn Bankasýslu Ríkisins segir að Páll Magnússon hafi uppfyllt allar kröfur sem gerðar voru til umsækjenda um starf forstjóra Bankasýslunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×