Innlent

Umferðarljós tengd - en sjóndaprir ökumenn óku full hratt

Umferðarljós.
Umferðarljós.
Betur gekk en áætlað var að endurnýja og tengja umferðarljós á gatnamótum Stekkjarbakka, Skógarsels og Breiðholtsbrautar, en þeirri vinnu lauk í gærkvöldi samkvæmt tilkynningu frá borginni.

Umferðarljósin voru þá samstundis virkjuð á ný og gatnamótin opnuð. Ekkert verður af áður tilkynntri lokun í dag, en áréttað að gatnamótin eru áfram vinnusvæði og eindregið brýnt fyrir ökumönnum að virða hraðatakmarkanir.

Starfsmenn á vettvangi vilja brýna fyrir ökumönnum að gatnamótin og næsta nágrenni þeirra eru enn vinnusvæði og skýrt merkt sem slík. Þeir segja að svo virðist sem umferðarmerki af stærstu gerð í neongrænum lit, merkt með hámarkshraða 30 km/klst., séu ósýnileg mörgum ökumönnum á Breiðholtsbraut. Sjónin hafi þó batnað verulega þegar sett voru upp umferðarskilti um hvassar brúnir eftir að malbik var fræst.

Starfsmönnunum fannst ákaflega gott að hafa lögregluna á svæðinu í gær til halds og traust við að halda umferðarhraða niðri.

Enn er nokkur vinna eftir vegna umferðarljósanna. Settir verða skynjarar í malbik og myndavélar verða settar við gatnamótin. Yfirborðsmerkingar á götum fara fram þegar aðstæður leyfa. Vinna við frágang yfirborðs á umferðareyjum heldur áfram næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×