Innlent

Krefjast gæsluvarðhalds yfir konunni sem grunuð er um hnífaárás

Mynd/Heiða
Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir konunni sem talin er hafa stungið sambýlismann sinn í Kópavogi í gær.

Maðurinn, sem er á sextugsaldri liggur alvarlega slasaður á spítala eftir að hafa orðið fyrir hnífstungum í gær. Lögregla var kölluð að heimili í Kópavoginu um klukkan fimm í gær en tilkynnt hafði verið um slasaðan mann. Þegar lögreglan kom á vettvang kom í ljós að honum höfðu verið veitt nokkur stungusár í kvið og á handlegg. Sambýliskona mannsins, sem einnig er á sextugsaldri, var handtekin grunuð um verknaðinn.

Björgvin Björgvinsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við fréttastofu að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir henni í dag. Yfirheyrslur hófust nú rétt fyrir hádegið en í fyrstu var ekki hægt að yfirheyra konuna sökum andlegs ástands hennar. Ekki fengist upplýsingar um líðan mannsins hjá Landspiítalanum en að sögn lögreglu var maðurinn ekki í lífshættu þó hann sé alvarlega slasaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×