Innlent

Þungt hljóð í lögreglumönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Hljóðið í okkur er þung, mjög þungt," segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, en gerðardómur kvað upp úrskurð sinn í kjaradeilu lögreglumanna við ríkið í dag.

Vísir náði svo tali af Snorra eftir að úrskurðurinn hafði verið kynntur lögreglumönnum á almennum fundi. Snorri segir að lögreglumönnum hafi verið boðnar sömu launahækkanir og almennt buðust í kjarasamningum fyrr á árinu. Auk þess var tímabundin 15 þúsund króna álagsgreiðsla sem lögreglumenn fá greidda hækkuð um þrettán þúsund krónur.

„Þetta er engan vegin ásættanleg niðurstaða og gerir ekkert til þess að slá á þá óánægju sem hefur verið í okkar röðum," segir Snorri. Hann segir að með engu hafi verið komið til móts við kröfur lögreglumanna um að laun þeirra yrðu hækkuð þannig að þau yrðu jöfn launum viðmiðunarstétta, svo sem tollvarða.

Grunnkrafa lögreglumanna er sú að laun eftir lögregluskóla ríkisins verði 325 þúsund krónur, en er í dag rúmar 211 þúsund krónur. „Það er grunnkrafan sem hefur verið haldið á lofti frá haustmánuðum 2008 þegar samningalotan hófst þá," segir Snorri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×