Innlent

Hefur heimsótt Ísland 25 sinnum á fjórum árum

HKS skrifar
Breskur ferðamaður sem hefur heimsótt Ísland tuttugu og fimm sinnum á síðustu fjórum árum varar Íslendinga við því að ráðast í of miklar framkvæmdir á hálendinu. Hann er nú mættur hingað til lands, ásamt fjölskyldu og vinum.

Það er óhætt að segja að Richard Neo-cleous hafi fallið fyrir landi og þjóð þegar hann sótti Ísland heim í fyrsta skipti fyrir fjórum árum. Síðan þá hefur hann komið að meðaltali sex sinnum á ári en í janúar síðastliðnum gekk Richard þvert yfir Ísland á tólf dögum og nú er hann kominn aftur ásamt fjölskyldu og vinum.

„Ég er ekki að reyna að slá met. Mér líkar bara svo vel hér. Mér fannst frábært að ganga út úr flugvélinni með vinum mínum og skemmta mér hér."

Það er fyrst og fremst hin óspjallaða íslenska náttúra sem heillar.

„Ef maður fer í göngu á Bretlandi þá gengur maður bara um og sér svo margt fólk. Hér er maður einn úti í náttúrunni og í óbyggðunum. Þetta er svo fallegt. Ég finn til öryggis hér. Fólk sem maður hittir er kurteist. Það er dásamlegt að vera hér. Fólkið skapar staðinn."

Richard segir mikilvægt fyrir íslendinga að varðveita hálendið.

„Þetta er mér mikið hjartans mál. Ekki leggja fleiri vegi. Ekki opna aðganginn að hálendinu. Ekki breyta því. Ef þið breytið því gengur það ykkur úr greipum og þá er það glatað að eilífu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×