Innlent

Alþingi síðast sett klukkan hálf tvö á laugardegi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segir að þingsetningu á laugardag hafi ekki verið flýtt útaf boðuðum mótmælum. Lögreglan verður ekki með heiðursvörð vegna sparnaðar.

Hátt í þrjú þúsund mótmælendur söfnuðust saman á Austurvelli þegar alþingi var sett í október á síðasta ári. Eggjum var kastað að alþingismönnum og forseta Íslands sem áttu fótum sínum fjör að launa.

Samkvæmt venju er alþingi sett í byrjun októbermánaðar og hefur athöfnin hingað til hafist klukkan hálf tvö. Mótmælendur tóku mið af þessari venju þeir boðuðu til nýrra mótmæla á laugardag. Alþingi ákvað hins vegar breyta tímasetningunni og hefst athöfnin klukkan hálf ellefu um morguninn.

Margir hafa litið svo á að með þessu sé alþingi að reyna forðast mótmælendur.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, vísar þessu á bug og segir að ákvörðun um breyta tímasetningu hafi verið tekin á fundi forsætisnefndar í sumar og að sú ákvörðun hafi ekki tengst boðuðum mótmælum.

„Þingsetningu var ekki flýtt. Þingsetning er klukkan 10.30. Hún kemur upp á laugardag að þessu sinni og þingfundir á laugardag byrja klukkan 10.30 og þannig hefur það verið síðan ég varð forseti Alþingis," segir Ragnheiður Ásta Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.

Alþingi var síðast sett á laugardegi árið 2005 en þá hófst athöfnin klukkan hálf tvö.

Þetta snýst sem sagt ekki um það að þingheimur sé hræddur við almenning í landinu?

„Ég held að það sé enginn hræddur við almenning. Ef fólk vill mótmæla að þá mótmælir það friðsamlega og ég vonast til þess að menn geri það," segir Ragnheiður Ásta.

Sú hefð hefur skapast í gegnum tíðina að lögregluþjónar standi heiðursvörð við þingsetningu en ekkert verður um slíkt í ár. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við fréttastofu að þetta sé gert í sparnaðarskyni.

Ákvörðun þessa efnis hafi verið tekin fyrr á þessu ári, áður en úrskurður gerðardóms í laundeilu lögreglumanna lá fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×