Innlent

Fundu fyrir einkennum sex mánuðum eftir eldgosið

Eldgosið í Eyjafjallajökli hafði nokkur áhrif á líðan fólks á gossvæðinu. Þegar hálft ár var liðið frá gosinu fundu íbúar þar nálægt bæði fyrir einkennum í öndunarfærum og streitu. Þetta sýnir ný rannsókn.

Ný rannsókn á heilsufarslegum áhrifum eldgossins í Eyjafjallajökli verður kynnt á málþingi um áhrif náttúruhamfara í Þjóðminjasafninu í hádeginu á morgun. Rannsökuð var andleg og líkamleg líðan fólks á gossvæðinu í október og nóvember í fyrra, hálfu ári eftir gosið. Til að átta sig á hversu mikil áhrif gosið hafði á líðan fólksins var einnig skoðuð líðan fólks í Skagafirði á sama tíma til samanburðar.

Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, segir að rannsóknina sýna skýran mun á ákveðnum sviðum. ,, Sérstaklega hvað varðar augu, viðkvæma líkamshluta þar sem askan getur sært, líka öndunarfæri, lungu, brjóstverki og slíkt og svo eru ákveðnir prófaðir spurningalistar sem mæla andlegt álag sem fólk hefur orðið fyrir. Þar sjáum við líka greinilegan mun á milli Sunnlendinganna og Skagfirðinganna".

Guðrún segir muninn marktækan. Rannsóknin sýni að aukin áhætta var á líkamlegum einkennum hjá íbúum á gossvæðinu eins og ertingu í augum og húð, svo og einkenni frá öndunarfærum og lungum. Auk þess eru ákveðnar vísbendingar um streituáhrif en þau mest hjá þeim sem bjuggu hvað næst gosstöðvunum. Guðrún segir aðeins um fyrstu niðurstöður að ræða. Verið sé að vinna úr gögnunum, það sem eigi eftir að skoða sérstaklega séu áhrif gossins á börn á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×