Innlent

Hefur áhyggjur af vaxandi einelti á Suðurnesjum

Breki Logason skrifar
Framkvæmdarstjóri Olweusar-áætlunarinnar á Íslandi hefur áhyggjur af vaxandi einelti á suðurnesjum og kallaði meðal annars fræðslustjóra á sinn fund í vor. Hann segir þó mikla faglega vinnu hafa farið í gang í grunnskólanum í Sandgerði, eftir að ellefu ára drengur sem var fórnarlamb eineltis svipti sig lífi.

Drengurinn sem hafði orðið fyrir miklu einelti í skóla svipti sig lífi á heimili sínu í Sandgerði síðast liðinni föstudag.

Grunnskólinn í Sandgerði fylgir, líkt og fleiri skólar hér á landi, svokallaðri Olweusar-áætlun í starfi sínu. Þorlákur Helgason, framkvæmdarstjóri áætlunarinnar hér á landi átti fund í gær með kennurum, og nemendum sem hann segir bregðast misjafnlega við.

„Í gær, þegar ég var í skólanum, var að sjá að börnunum leið misilla. En við unnum í hverjum bekk og með hverju barni," segir Þorlákur Helgason, framkvæmdarstjóri Olweusar-áætlunarinnar á Íslandi.

Þorlákur hefur þó áhyggjur af einelti á Suðurnesjum sem hefur verið að aukast þvert á það sem hann sér á höfuðborgarsvæðinu. Hann segist hafa haft áhyggjur í nokkurntíma og kallaði meðal annars fræðslustjóra á sinn fund vegna þessa í vor.

„Það sést greinilega að á vissum stöðum á Suðurnesjum þá er, ekki síst hjá unglingum, mikið einelti. Það mátti lesa það úr líðan drengja, og að þeir eiga ekki nógu marga vini," segir Þorlákur.

Og hann segir mikið atvinnuleysi á suðurnesjum hafa sitt að segja en hann finni fyrir miklum skilningi í að bæta þessi mál ennfrekar.

Þar skipti samvinnu foreldra og skóla höfuðmáli, og mikilvægt sé að skólar átti sig á því að það sé ekki víst að allir foreldrar ráði við þær kröfur sem til þeirra eru gerðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×