Innlent

Vilja endurskrifa fiskveiðistjórnunarfrumvarpið fyrir ráðherra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lilja Rafney Magnúsdóttir er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.
Lilja Rafney Magnúsdóttir er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis. Mynd/ vilhelm.
Formaður og varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis hafa lýst sig reiðubúna til þess að skrifa frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu upp að nýju í umboði ráðherra. Segja þær fordæmi fyrir þessu, meðal annars við smíði frumvarpa í stjórnarráðin.

Í bréfi sem þær Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, og Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður nefndarinnar, hafa sent fjölmiðlum leggja þær til fjölmargar breytingar á frumvarpinu sem þær segja nauðsynlegt að gera.

Meðal annars að tryggt verði að handhafar nýtingarsamninga eigi þess kost að bjóða í aflaheimildir í leigupotti og kvótalitlar útgerðir eigi þess kost að bjóða í nýtingarsamninga. Að sama skapi verði leiguhlutinn aukinn að verulegum mun, t.d. í 20-30% þeirra aflaheimilda sem til ráðstöfunar er hverju sinni. Þá leggja þær til að horfið verði frá hinum svokallaða byggðapotti, sömuleiðis rækju- og skelbótum. Einnig vilja þær að strandveiðar verði gefnar frjálsar í skilgreindri strandveiðihelgi að uppfylltum skilyrðum sem nánar eru skilgreindar í greinargerðinni.

Þær Lilja Rafney og Ólína vilja jafnframt að skerpt verði á markmiðsetningu og útfærslu á takmörkunum framsals aflaheimilda, einkum varðandi leiguframsal, að kvótaþing verði skilgreint betur og ígrundaðar vel þær aðferðir sem viðhafðar verða við uppboð aflaheimilda og að allur afli verði boðinn á innlendan markað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×