Íslenski boltinn

Umfjöllun: Ótrúleg dramatík í lokin þegar Fylkir vann Víking

Ari Erlingsson skrifar
Ásgeir Örn Arnþórsson tryggði Fylki 2-1 sigur á Víkingi með síðustu spyrnu leiksins þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Staða Víkinga versnaði því enn en þeir eru einir á botni Pepsi-deildarinnar níu stigum frá öruggu sæti.

Víkingar hafa þar með leikið sjö leiki undir stjórn Bjarnólfs Lárussonar án þess að ná að vinna leik en Víkingsliðið hefur aðeins náð í tvö stig síðan að Bjarnfólfur tók við af Andra Marteinssyni í júlí.

Fyrirfram mátti áætla að leikurinn myndi verða jafn og spennandi. Jafn og spennandi var hann en ekki voru tilþrifin mikil. Leikurinn var drepleiðinlegur í 80 mínútur en þegar 10 mínútur lifðu leiks var sem nýr leikur hæfist og leikmenn liðanna settu í sóknargírinn.

Þrjú mörk voru skoruð á lokakaflanum og þar af skoraði Ásgeir Örn Arnþórsson miðjumaður Fylkis sigurmarkið með síðustu spyrnu leiksins. Lokatölur 2-1 fyrir Fylki.

Eins og áður segir var leikurinn jafn lengst af en Víkingar fengu þó betri færi. Björgólfur Takefusa fékk það besta þegar hann lét gamla Þróttarafélaga sinn Fjalar Þorgeirsson verja frá sér vítaspyrnu. Eins fékk Sigurður Egill Lárusson dauðafæri er hann slapp einn í gegn en Fjalar varði slakt skot hans.

Seinni hálfleikur var líkt og sá fyrri jafn. Leikur liðanna einkenndist af ómarkvissum sóknum og stífum varnaleik. Það var ekki fyrr en leikklukkan sýndi 82 mínútur að líf færðist í leikinn. Þá skoraði Viktor Jónsson þá nýkominn inn sem varamaður. Viktor skoraði með sinni fyrstu snertingu eftir stungusendingu frá Sigurði Lárussyni.

Heimamenn í Fylki voru þó ekki lengi að svara fyrir sig. Hinn 17 ára Hjörtur Hermannsson jafnaði leikinn á 86 mínútu þegar hann fylgdi eftir stangarskoti frá Tómasi Þorsteinssyni. Við mark Hjartar tóku þeir appelsínugulu öll völd.

Eftir þó nokkra pressu skoraði Ásgeir Örn Arnþórsson mark á 93 mínútu innan úr vítateig. Ásgeir fékk boltann frá Alberti Ingasyni, tók boltann á brjóstið og hamraði knöttinn í netið. Víkingar tóku miðju og því næst flautaði Þóroddur Hjaltalín dómari til leiksloka. Fylkismenn fóru því með sigur af hólmi í hádramatískum leik.

Það má svo sannarlega vorkenna Víkingum eftir leikinn. Þeir voru engu síðri í leiknum og líklegast hefði sanngjarnasta niðurstaðan verið jafntefli.

Því miður fyrir þá nýttu þeir ekki færin sín og Fylkismenn refsuðu þeim illilega undir lok leiks. Bestur í liði Víkinga var Colin Marshall á miðjunni. Í liði Fylkis voru markaskorarnir Ásgeir Örn og Hjörtur frískir auk þess sem Fjalar varði vel á mikilvægum augnablikum.

Staða Víkinga eftir úrslit kvöldsins er virkilega slæm og það er greinilegt lánleysi ríkjandi í Víkinni. Þeir voru vel inni í þessum leik en töpuðu leiknum á eigin klaufaskap í lokin sem er dæmigert fyrir lið í fallbaráttu.

Fylkismenn þurftu ekki að sýna neinn glansleik til þess að sigra en þeir geta þó glatt sig við það að nægur er efniviðurinn í Árbænum. Lið Fylkis hefur tekið gríðarlegum breytingum í sumar. Þeir hafa misst tvo menn út í atvinnumennsku auk þess sem mikil meiðsli hafa herjað á þá.

Ungu strákarnir í leikmannahóp Fylkis sýndu í dag að þeir geta vel spilað flottan fótbolta og það er því vel hægt að byggja upp sterkt lið í Árbænum á næstunni.

Fylkir – Víkingur 2-1

0-1 Viktor Jónsson (82.)

1-1 Hjörtur Hermannsson (86.)

2-1 Ásgeir Örn Arnþórsson (93.)

Fylkisvöllur. Áhorfendur: 865

Dómari: Þóroddur Hjaltalín Jr. (8)

Tölfræðin:

Skot (á mark): 10–8 (3-2)

Varin skot: Fjalar 1 – Magnús  2

Hornspyrnur: 6–1

Aukaspyrnur fengnar: 15–10

Rangstöður: 2–1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×