Íslenski boltinn

Halldór Hermann: Höfum spilað gífurlega vel í síðustu þremur leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halldór Hermann Jónsson.
Halldór Hermann Jónsson.
Halldór Hermann Jónsson átti fínan leik á miðju Framara þegar liðið vann mikilvægan 1-0 sigur á Breiðabliki í Pepsi-deild karla í dag. Þetta var annar sigur Framara í röð á Laugardalsvellinum sem sá ekki Framsigur í fyrstu sjö leikjunum liðsins í sumar.

„Þetta var hrikalega mikilvægur sigur upp á framhaldið hjá okkur," sagði Halldór Hermann en Fram er nú aðeins þremur stigum á eftir Keflavík sem situr í síðasta örugga sætinu og á leik inni á móti Val í kvöld.

„Við vorum búnir að úthugsa það hvernig þeir spila og það gekk eftir. Við duttum svolítið til baka í seinni hálfleik en það verður oft þannig þegar þú ert 1-0 yfir og reynir að halda. Þetta var ekki það sem við ætluðum okkur en það gekk eftir," sagði Halldór Hermann.

„Við strákarnir erum loksins að ná saman. Við erum farnir að spila gífurlega vel og höfum gert það í síðustu þremur leikjum. Við erum að fá góða spilkafla og mörk upp úr því. Það er ennþá stígandi í liðinu okkar," sagði Halldór Hermann.

„Við erum farnir að klára færin okkar en vorum ekki að gera það í byrjun tímabilsins. Núna erum við að nýta færin okkar og það er munurinn á þessu hjá okkur," sagði Halldór Hermann og Framarar ætla ekki að gefa neitt eftir á lokakaflanum.

„Það er ennþá á brattann að sækja en við höldum í vonina og allir strákarnir í liðinu hafa bullandi trú á þessu," sagði Halldór Hermann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×