Íslenski boltinn

Kristján: Launamálin hafa gríðarleg áhrif á okkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals. Mynd/Anton
Kristján Guðmundsson þjálfari Valsmanna sagðist svekktur með 1-0 tapið gegn Keflvíkingum. Hann tók undir með blaðamanni að færin hefðu verið af skornum skammti.

„Nei, bara þarna í blálokin. Það er alveg satt. Við komumst ekki í hrein og góð færi. Ákvarðanatökurnar í og við teiginn voru langflestar rangar," sagði Kristján.

„Við erum að senda þegar við eigum að skjóta og veljum oft rangt þegar við erum að senda," bætti Kristján við.

Kristján sagði vissulega mikinn missi í Guðjóni Pétri Lýðssyni. Það væri hins vegar ýmislegt annað sem gera þyrfti til þess að koma liðinu í gang.

„Það sem er að ganga á hefur gríðarleg áhrif á okkur og allt sem við erum að gera," sagði Kristján og játti því að hann ætti við launamál leikmanna og fjárhagslega hlið félagsins.

„Það er verið að vinna í þessum málum, það er byrjað og vonandi farið langt með það í þessari viku. En þetta er ekkert í fyrsta skipti sem íþróttafélög eða knattspyrnufélög endursemja við leikmenn sína," sagði Kristján.

Valsmenn eru í Evrópusæti eins og staðan er í dag. Kristján vildi ekki ræða möguleika Valsmanna á Evrópusæti.

„Eins og ég segi þá þurfum við bara að sjá hvort við séum tilbúnir að spila hvern leik fyrir sig án þess að vera með eitthvað lokamarkmið," sagði Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×