Íslenski boltinn

Bjarni: Auðveldara að peppa sig upp í stærri leiki

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Bjarni Jóhannsson þjálfari Stjörnunnar.
Bjarni Jóhannsson þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Daníel
Bjarni Jóhannsson þjálfari Stjörnunnar var allt annað en sáttur við spilamennsku síns liðs í Grindavík í kvöld þar sem liðið skiptust á skiptan hlut 2-2.

„Það vantaði allt hungur í okkur í dag og heilt frekar rólegur leikur af okkar hálfu. Frammistaða okkar var ekkert sérstök,“ sagði Bjarni eftir leikinn.

Stjarnan átti frábæran leik í síðustu umferð gegn FH og það virtist vera erfiðara fyrir leikmenn liðsins að mótivera sig fyrir leik gegn Grindavík.

„Í sögu Stjörnunnar erum við í því ferli að það sé auðveldar að peppa sig upp í stærri leiki en menn verða að skilja að það eru jafn mörg stig í boði í svona leikjum eins og hér.“

„Aðstæður voru frábærar og við höfum enga afsökun, við vorum bara ekki á tánum í dag,“ sagði Bjarni en Stjarnan hefur nú leikið sex leiki í röð án þess að tapa en þó aðeins sigrað tvo þeirra.

„Miðað við gengi okkar í fyrra þá erum við að fækka töpunum og það er flott þróun en núna erum við komnir á þann stað að við þurfum að fjölga sigrunum í staðin fyrir jafnteflin.“

„Við vorum ekki nógu vel stemmdir í dag og vonandi verður þetta til að sparka í rassgatið á okkur fyrir það sem eftir er. Þetta er það slappasta hjá okkur í sumar en hins vegar má ekki taka það af Grindvíkingum að þeir komu dýrvitlausir og við áttum í basli með þá á köflum. Það má ekki taka það af þeim að þeir voru að spila vel,“ en það kom Bjarna ekki á óvart.

„Við vissum að við þyrftum að hafa fyrir sigrum á völlum sem þessum og það átti ekki að koma mönnum á óvart en það sló okkur útaf laginu í leiknum,“ sagði Bjarni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×