Innlent

Neyddir til að lenda vegna veikinda farþega

Flugvél Iceland Express á leið frá New York til Keflavíkur var í nótt neydd til að lenda í Goose Bay í Kanada vegna veikinda farþega. Líkur benda til þess að um mjög alvarlegt flogakast hafi verið að ræða.

Íslenskur læknir sem var um borð annaðist manninn og mat aðstæður sem svo að nauðsynlegt væri að koma honum sem fyrst á sjúkrahús. Síðan hefur ekki heyrst af líðan mannsins, sem er af erlendu bergi brotinn. Upplýsingafulltrúi Iceland Express, Heimir Már Pétursson, gerir ráð fyrir því að líðan hans sé góð.

Vegna þessarar uppákomu tafðist flugvélin um tvo tíma.

Goose Bay er lítill flugvöllur í Kanada. Bærinn er á stærð við Akranes, en á sínum tíma var þetta ákaflega fjölfarinn völlur. Þar lentu allar flugvélar sem áttu leið yfir Atlantshafið og tóku bensín áður en þær lögðu í ferðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×