Innlent

Borgarstjórinn hefur í mörgu að snúast á Menningarnótt

Borgarstjóri Reyjavíkur er vel nýttur á Menningarnótt
Borgarstjóri Reyjavíkur er vel nýttur á Menningarnótt
Leikið var á níu hörpur í Hörpunni við setningu Menningarnætur fyrr í dag. Borgarstjórinn Jón Gnarr setti hátíðina á útisviði við tónlistar- og ráðstefnuhúsið, en hann hefur vægast sagt afar þétta dagskrá í dag.

Borgarstjóri hóf daginn á því að útnefna Borgartréð 2011, sem er 80 ára gamalt Evrópulerki í Hólavallagarði. Að því búnu gekk hann niður í Lækjargötu þar sem Reykjavíkurmaraþonið stóð sem hæst. Þar ræsti hann þátttakendur í skemmtiskokkinu, þar sem fólk á öllum aldri tók þátt.

Hann setti Menningarnótt formlega klukkan 13.00 í dag á útisviði við Hörpuna að viðstöddu fjölmenni. Yfirskrift Menningarnætur að þessu sinni er „Gakktu í bæinn“, en borgarstjórinn sagði það vísa til þeirrar gömlu og góðu íslensku venju að bjóða fólk velkomið. Hann hvatti borgarbúa til að njóta hinnar umfangsmiklu og fjölbreyttu dagskrár sem í boði er á Menningarnótt og ganga vel um miðborgina.

Strax að setningu lokinni tók við hljómsveitin Reykjavík Jungle Unit með Gunnlaug Briem trommuleikara í broddi fylkingar en þarnæst sat borgarstjóri tónleika í Hörpu þar sem leikin voru frumsamin íslensk verk á níu hörpur.

Í Ráðhúsi Reykjavíkur setti borgarstjórnn svo 25 ára afmælishátíð systurborganna Reykjavíkur og Seattle sem fram fer í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá frá Seattle fram á kvöld.

Menningarnótt Reykjavíkur er nú haldin í sextánda sinn og er langfjölmennasta hátíð sem haldin er á landinu. Dagskráin hefur gengið vel það sem af er degi og að sögn lögreglu hefur verið jafn straumur fólks í miðborgina og fer fjölgandi eftir því sem líður á daginn.

Boðið verður upp á veglega tónleika bæði á Arnarhóli og á Ingólfstorgi í kvöld, en Menningarnótt lýkur svo með því að ljósin verða kveikt í glerhjúpi Hörpu og í beinu framhaldi af því verður flugeldasýning sem hefst klukkan 23.00.

Reykjarvíkurborg hvetur borgarbúa til að skilja bílinn eftir heima, nýta sér ókeypis strætóferðir eða ganga í miðborgina á Menningarnótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×