Erlent

Kvöddu vinsælustu mörgæs Nýja Sjálands

Fjölmargir lögðu leið sína í Wellington dýragarðinn á Nýja Sjálandi í dag til að kveðja vinsælustu mörgæs landsins.

Mörgæsin, sem heimamenn kalla Happy Feet, eða Gleðigaur, fannst illa til reika óravegu frá heimili sínu á Suðurpólnum. Hún var flutt í dýragarðinn í Wellington þar sem hún vakti mikla athygli.

Reyndar hófst dvöl hennar ekki vel. Á fjórða degi í dýragarðinum veiktist hún illa eftir að hafa borðað fylli sína af sandi. Töldu dýralæknar að mörgæsin hefði ruglast á sandi og snjó og var henni komið undir læknishendur. Hún náði sér þó af magakveisunni og vann hug og hjörtu landsmanna.

Þjóðin og raunar heimsbyggðin öll hefur fylgst náið með heilsu mörgæsarinnar, því hægt var að fylgjast með ævintýrum hennar í dýragarðinum í gegnum vefmyndavél. Gleðigaur á yfir 120 þúsund vini á netinu og þessir vinir sátu ekki aðgerðarlausir heldur söfnuðu tíu þúsund dollurum fyrir nýju húsi handa mörgæsinni.

Nú á að sleppa Happy Feet aftur út í náttúruna nærri heimkynnum sínum á pólnum. GPS sendir verður festur við mörgæsina svo vísindamenn geti fylgst með ferðum hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×