Innlent

Ósammála um hvort loka þarf leikskóladeildum

Verkfallið mun hafa áhrif á 14 þúsund fjölskyldur
Verkfallið mun hafa áhrif á 14 þúsund fjölskyldur Mynd úr safni / Vilhelm
Lögfræðingur Kennarasambands Íslands, sem Félag leikskólakennara heyrir undir, er ósammála þeirri túlkun forsvarsmanna Sambands íslenskra sveitarfélaga að leikskóladeildir geti starfað áfram ef deildarstjórinn er í verkfalli.

„Lögfræðingur okkar túlkar þetta á annan hátt og það er sú túlkun sem við munum fara eftir," segir Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara.

Í hádegisfréttum RÚV var greint frá því að Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs sambandsins, segi það mat sambandsins að leikskólastjórum skuli sjá til þess að allar deildir séu starfandi á meðan verkfalli stendur, og nýta til þess það starfsfólk sem ekki er í verkfalli. Að mati sambandsins geta leikskólastjórnendur fært starfsfólk á milli deilda með það að markmiði að halda sem flestum deildum opnum. Þessu er lögfræðingur Kennarasambandsins ósammála.

Haraldur segir í samtali við fréttastofu að hans fólk setjist á fund með lögfræðingnum nú klukkan tvö þar sem farið verði yfir stöðuna.

Fyrir liggur að einhverjar leikskóladeildir halda áfram að starfa þrátt fyrir verkfall, sama hvaða túlkun er miðað við, þar sem ófaglærðir starfsmenn leikskóla sem ekki eru í Félagi leikskólakennara munu áfram mæta til vinnu. Þá heyra stjórnendur á leikskólum ekki undir félagið heldur eru þeir í Félagi stjórnenda í leikskólum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×