Innlent

Lítill tilgangur að halda hvalveiðum áfram til að geyma kjötið í frysti

Steingrímur J. Sigúfsson, fjármálaráðherra, segir lítinn tilgang að halda hvalveiðum áfram til þess eins geyma kjötið í frystigeymslu

Bandarísk stjórnvöld íhuga að beita Íslendinga refsiaðgerðum vegna hvalveiða. Þau telja íslensk stjórnvöld grafa undan markmiðum alþjóðlegra sáttmála um bann við hvalveiðum. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, vonar að ekki verði mikið úr aðgerðum og ítrekar að veiðarnar séu fullkomlega löglegar. Hann segir þó annað mál hversu efnahagslega skynsamlegt sé við núverandi aðstæður að reyna hvalveiðar í atvinnuskyni í stórum stíl til útflutnings.

„Ég sé lítinn tilgang með því að veiða meira til þess eins að geyma það í frystigeymslu. Ég held að allir hljóti að sjá að það hefst ekki mikið upp úr því. Það sem við þurfum auðvitað að gera er að svona endurskoða grunn þessara mála hjá okkur og setja ný lög um hvali og meta okkar heildarhagsmuni bara yfirvegað og af skynsemi," segir Steingrímur.

Þeir séu fyrir löngu orðnir mjög blandaðir í þessu máli.

„Við eigum ríka hagsmuni í hvalaskoðun og ferðaþjónustu og auðvitað í því að flytja hindrunarlaust út okkar sjávarafurðir og útflutningsvörur. Við verðum að viðurkenna að þetta er umdeilt mál á alþjóðavettvangi, það er veruleiki sem við búum við. Á hinn bóginn hef ég verið þeirra skoðunar að við eigum ekki að gefa frá okkur okkar fullveldisrétt til að ákvarða og ástunda sjálfbæra nýtingu í okkar sérefnahagslögsögu. Hann viljum við ekki láta frá okkur. Þannig að við þurfum að halda á málinu með þetta allt í huga," segir Steingrímur að lokum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.