Innlent

Rútbílstjórinn í Múlakvísl: Búið að eyðileggja mannorðið mitt

Nota þurfti stóra vinnuvél til þess að koma rútunni upp úr fljótinu.
Nota þurfti stóra vinnuvél til þess að koma rútunni upp úr fljótinu. Mynd / Sigurður Hjálmarsson
„Það hefði auðveldlega mátt koma í veg fyrir slysið. Það hefði verið einfalt mál,“ segir Björn Sigurðsson, rútubílstjóri sem stýrði rútunni sem fór á bólakaf í Múlakvísl í gærdag. Um tuttugu farþegar voru í bílnum þegar rútan festist út í miðri ánni með þeim afleiðingum að bjarga þurfti ferðamönnunum af þaki rútunnar.

Björn heldur því fram að slysinu hefði auðveldlega mátt afstýra ef sérútbúin jeppabifreið hefði verið fengin til þess að kanna vaðið í fljótinu áður en rútan færi yfir. Sjálfur bauðst hann til þess að sjá um að kanna vaðið á eigin bíl gegn verktakakostnaði.

„En því var hafnað og þess vegna lagði ég bílnum,“ segir Björn. Hann heldur því fram að óhappið í gær hefði aldrei átt sér stað hefði bíllinn verið notaður.

„Það er bara búið að eyðileggja mitt mannorð,“ segir Björn sem er mikið niðri fyrir eftir óhappið í gær. Hann heldur úti langferðabílaþjónustu og vill meina að atvikið hafi stórskaðað reksturinn hans.

„Ég var tjónalaus fram að þessu,“ segir Björn sem gagnrýnir einnig björgunarsveitarmenn sem komu þeim til aðstoðar. Að sögn Björns tók það björgunarsveitina óvanalega langan tíma að losa kaðal til þess að ná rútunni upp úr fljótinu. Björn segir að vegna þess hversu mikinn tíma það tók að losa kaðalinn þá hafi hann þurft að drepa á vél rútunnar og þar með hafi þurftu að draga hana upp úr fljótinu. Aðspurður hversu langan tíma það hafi tekið segir hann að þetta hafi verið mínútuspursmál.

Birni segist sárna kjaftasögur um óhappið: „Það eru kjaftasögur um að það hafi bara verið einhver vitleysingur á bílnum,“ segir Björn sem þvertekur fyrir að svo sé. Hann segist hafa farið eins mögulega varlega og hægt var, en vaðið sé síbreytilegt í fljótum sem þessum, og því fór sem fór.

Rútan sem Björn ók er ekki skemmd. Björn segir að rútan sé aftur komin í lag og hafi þolað volkið sem hún lenti í. Hann bauðst til þess að halda áfram flutningum yfir fljótið  en Vegagerðin hafnaði því er búin að segja upp samningum við Björn að hans sögn.

Björn segir slysið til rannsóknar hjá yfirvöldum en skýrslutökur hafa ekki farið fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×